42% kvenna kusu Trump

Þrátt fyrir að hafa verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi, að hafa gagnrýnt holdafar fyrrverandi fegurðardrottningar og vera andstæðingur fóstureyðinga þá eiga konur stóran þátt í því að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. 

Hillary Clinton, frambjóðandi demókrata, fékk 54% atkvæða kvenna en 42% kvenna kusu Trump, samkvæmt útgönguspá CNN. Alls kusu 53% hvítra kvenna frambjóðanda repúblikana og samkvæmt CNN er meirihluti þeirra (62%) ómenntaður. Það er hefur ekki lokið framhaldsnámi.

Samkvæmt þessu er ljóst að niðrandi ummæli Trumps og framkoma hans í garð kvenna höfðu ekki neikvæð áhrif á hug kvenna í hans garð. 

Sérfræðingar sem AFP-fréttastofan hefur rætt við segja niðurstöðuna ekki koma á óvart - að kjósendur hafi valið Trump fremur en frambjóðanda sem hefði brotið glerþakið. Kjósendur hafi haft meiri áhuga á efnahagsástandinu, atvinnumálum og innflytjendum fremur en jafnréttismálum. 

Diane Heith, prófessor í stjórnmálafræði við St. John's háskólann í New York, segir að myndskeið Access Hollywood þar sem Trump talar niðrandi til kvenna og ummæli hans um holdafar fyrrverandi  Miss Universe hafi haft áhrif á hug ýmissa kvenna en samt ekki það mikinn að þær kusu hann ekki. „Það varð ekkert systralag til,“ segir Heith.

Margar konur eiga þrátt fyrir þetta erfitt með að skilja hvernig maður eins og Trump var kjörinn forseti. Enda kaus yfir helmingur hvítra kvenna mann sem hreykti sér af kynferðislegu ofbeldi í myndskeiði og mann sem segist ætla að tilnefna hæstaréttardómara sem myndi snúa við Roe v. Wade ... dómnum. Manni sem eyddi yfir 30 árum í sviðsljósinu þar sem hann gerði lítið úr konum, skrifar L.V. Anderson í grein í vefritinu Slate.

Hún segir að hvítar konur hafi selt kynsystur sínar, land sitt og sig sjálfar. Flestar hvítar konur hafa engan áhuga á því að taka þátt í systralagi femínista. „Flestar hvítar konur vilja bara vera einn af strákunum og við þjáumst allar fyrir það,“ bætir ritstjórinn við í grein sinni.

Eitt af því sem veldur mörgum demókrötum og repúblikönum áhyggjum er hvernig verði tekið á málefnum fóstureyðinga með Trump í Hvíta húsinu. Í kosningabaráttunni fór hann ekki leynt með óbeit sína á fóstureyðingum og lagði meðal annars til að konum sem vildu eyða fóstri ætti að refsa. 

Varaforsetaefni hans, Pence ríkisstjóri í Indiana, lagði mikla áherslu á að herða fóstureyðingalöggjöfina í ríkinu og er hún mun harðari þar en víðast annars staðar í Bandaríkjunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert