Kraftaverkakúnum komið til bjargar

Kýrnar á dranganum sem myndaðist í skriðuföllunum.
Kýrnar á dranganum sem myndaðist í skriðuföllunum. Skjáskot/YouTube

Tekist hefur að bjarga tveimur kúm og einum kálfi sem voru í sjálfheldu á drang sem myndaðist eftir mikil skriðuföll í kjölfar jarðskjálftans á Nýja-Sjálandi.

Í gær var birt myndskeið af strandaglópunum þremur í fjölmiðlum um allan heim. Myndskeiðið var tekið úr þyrlu björgunarmanna sem voru að meta skemmdir eftir skjálftana í landinu. Fjölmargir skoruðu í kjölfarið á björgunarteymin að reyna að bjarga kúnum sem voru mjög umkomulausar á drangnum. 

Þær gleðifréttir hafa nú borist að bóndinn sem átti kýrnar hafi sjálfur komið þeim til bjargar. Vopnaður skóflu fór hann að drangnum, við erfiðar og hættulegar aðstæður, og gróf þær út úr sjálfheldunni. Haft er eftir bóndanum í frétt Guardian að kýrnar hafi verið hluti af fjórtán dýra hjörð sem hafi verið inni í gerði á svæðinu er skjálftinn reið yfir. Í kjölfar hans urðu mikil skriðuföll á svæðinu. Hluti af landareign bóndans færðist um þrjá metra úr stað. 

Önnur dýr bóndans voru ekki jafn heppin og kýrnar þrjár. Hann segir að öll fjallshlíðin hafi runnið af stað í skjálftanum stóra um helgina. Hann segist ekki enn vita hversu mörg dýr hafi drepist.

En kýrnar þrjár eru komnar á öruggan stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert