Gerðu bráðakeisara á látinni konu

Kaweah Delta Medical Center, þar sem barnið kom í heiminn.
Kaweah Delta Medical Center, þar sem barnið kom í heiminn. Ljósmynd/Kaweah Delta Medical Center

Læknar höfðu aðeins 30 sekúndur til að bjarga ófæddu barni eftir að móðir þess var skotin til bana í Kaliforníu. „Þetta var hetjulegt. Þetta er eitthvað sem okkur er kennt að gera, en gerist sjaldan,“ sagði bráðalæknirinn Greggory Shubert eftir aðgerðina.

Vanessa Oviedo var skotinn í höfuðið af einstaklingi eða einstaklingum í bíl, í svokallaðri „drive by shooting.“ Oviedo, sem var komin 35 vikur á leið, var flutt á sjúkrahús en þegar þangað var komið var hún látin.

Læknar höfðu, líkt og fyrr segir, 30 sekúndur til að framkvæma bráðakeisara og bjarga barninu. Það tókst. Ástand barnsins er stöðugt, að sögn lögreglu.

Oviedo var í bifreið ásamt þremur öðrum, þeirra meðal 11 mánaða gömlu barni, þegar farþegar í annarri bifreið skutu í átt að bílnum. Hin 27 ára Oviedo fékk byssukúlu í höfuðið, með fyrrgreindum afleiðingum.

Svo virðist sem um hafi verið að ræða einhvers konar uppgjör milli gengja. Ekki er vitað hvort Oviedo var skotmarkið.

Að sögn skurðlæknisins Renee DeNolf, voru sekúndurnar 30 spennuþrungnar.

„Ég tók skurðhnífinn minn. Aðstoðarlæknirinn minn sagði „skerðu,“ svo ég skar.“

Barnið hreyfðist vart þegar það kom í heiminn og andaði ekki. Það var ekki fyrr en að nokkrum sekúndum liðnum að það fannst púls.

„Að draga þetta barn út og vita að þú bjargaðir því, það er eitthvað sem ég mun aldrei taka sem sjálfsögðum hlut,“ sagði DeNolf.

Sky News sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert