Andstæðingur Obamacare heilbrigðisráðherra

Tom Price í gylltri lyftu í Trump-turninum í New York.
Tom Price í gylltri lyftu í Trump-turninum í New York. AFP

Donald Trump hefur skipað Tom Price, þingmann frá Georgíu og bæklunarlækni, sem heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn sinni. Price hefur verið harður andstæðingur heilbrigðistryggingalaga Obama forseta sem Trump og repúblikanar hafa heitið að afnema.

Eins og með ýmis önnur stefnumál sín hefur Trump slegið í og úr um hvort hann muni afnema heilbrigðistryggingalögin sem hafa verið kennd við Barack Obama forseta. Þannig sagði hann í sjónvarpsviðtali skömmu eftir að hann var kjörinn forseti að hann gæti haldið í vinsælli hliðar laganna, þar á meðal þær sem tryggja fólki með sjúkdóma tryggingar og að börn fólks geti notað trygginganna til 26 ára aldurs.

Skipan Price sem heilbrigðisráðherra bendir hins vegar til þess að dagar Obamacare, sem tryggði milljónum ótryggðra Bandaríkjamanna sjúkratryggingu, séu taldir.

„Hann er einstaklega hæfur til að hafa umsjón með skuldbindingu okkar að afnema og skipta út Obamacare og færa öllum Bandaríkjamönnum ódýra og aðgengilega heilbrigðisþjónustu,“ sagði Trump í tilkynningu þegar hann upplýsti um skipan Price.

Í síðustu viku sagði Price að þær breytingar sem repúblikanar kæmu til með að gera á sjúkratryggingalögunum líktust verulega þeim sem þeir lögðu til í fyrra en Obama beitti neitunarvaldi sínu gegn. Það frumvarp hefði fjarlægt helstu ákvæði laganna, þar á meðal um að auka umfang Medicaid sem eru sjúkratryggingar tekjulágra fjölskyldna, styrkir til að hjálpa miðstéttarfólki að kaupa sjúkratryggingar frá einkaaðilum, skattalegar refsingar á þá sem neita að kaupa sér tryggingar og nokkrir skattar sem fjármagna aukið umfang sjúkratrygginga.

Price telur jafnframt að repúblikanar geti haldið ákvæði um að fólk með sjúkdóma njóti verndar trygginga án þess að gera öllum skylt að vera tryggðir eða greiða sektir til að styrkja tryggingasjóði. Hann telur að það sem auki kostnað í heilbrigðiskerfinu sé reglugerðir, skattar og lögsóknir gegn heilbrigðisstarfsmönnum.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert