Carlsen heimsmeistari í skák

Magnus Carlsen í einvíginu í kvöld.
Magnus Carlsen í einvíginu í kvöld. AFP

Norðmaðurinn Magnus Carlsen varði heimsmeistaratitil sinn í skák þegar hann lagði Rússann Sergei Karjakin í bráðabana í heimsmeistaraeinvígi í kvöld.

Skákmennirnir voru jafnir að loknu 12 skáka einvígi og háðu því bráðabana um sigurinn í kvöld. Þeir tefldu fjórar atskákir, þar sem hvor hafði 25 mínútna umhugsunartíma og 10 sekúndur bættust við eftir hvern leik. Carlsen hafði svart í fyrstu skákinni, sem lauk með  jafntefli. Í annarri skákinni, þar sem Carlsen hafði hvítt, fékk hann snemma betri stöðu og virtist um tíma með öruggan vinning. En í miklu tímahraki tókst Karjakin að  snúa á Carlsen og ná jafntefli.

Þriðja skákin var lengi jafnteflisleg en Karjakin lenti í miklu tímahraki. Þegar hann var um það bil að falla á tíma lék hann af sér manni og gafst upp.  Carlsen hafði því pálmann í höndunum þegar hann stýrði hvítu mönnunum í fjórðu skákinni og vann skákina þegar Karjakin teygði sig of langt í vinningstilraunum. Í lokin fórnaði Carlsen drottningunni og náði Karakin um leið í mátnet.

Carlsen, sem varð 26 ára í dag, varð heimsmeistari árið 2013 þegar hann vann Indverjann Viswanathan Anand í einvígi. Carlsen varði titilinn ári síðar í öðru einvígi við Anand. Hann hefur einnig orðið heimsmeistari í atskák og hraðskák.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert