Trump segist yfirgefa fyrirtækjareksturinn

Donald Trump segist ætla að boða til blaðamannafundar 15. desember …
Donald Trump segist ætla að boða til blaðamannafundar 15. desember um hvernig hann slíti tengslin við fyrirtækjarekstur sinn. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist ætla að yfirgefa rekstur fyrirtækja sinna til að einbeita sér að embættinu og til að forðast hagsmunaárekstra. Tilkynnti hann um þetta í tístum á Twitter í dag en ekki með hvaða hætti hann myndi fjarlægja sig frá rekstrinum.

Umfangsmikið viðskiptaveldi Trump hefur valdið áhyggjum af þeim hagsmunaárekstrum sem geta komið upp þegar hann tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar. Trump hafði fram að þessu gert lítið úr þeim áhyggjum og jafnvel sagst geta rekið fyrirtæki sín og sinnt embættinu fullkomlega á sama tíma.

Frétt Mbl.is: Telur sig ekki þurfa að slíta tengslin

Nú er annað hljóð komið í strokkinn. Á Twitter sagðist hann ætla að halda blaðamannafund 15. desember með börnunum sínum til að ræða um hvernig hann muni segja skilið við reksturinn.

„Þó að mér sér ekki skylt að gera það samkvæmt lögum þá finnst mér það ásýndarlega mikilvægt sem forseti að það séu ekki neinir hagsmunaárekstrar við fyrirtækin mín,“ skrifaði Trump meðal annars.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að þrjú elstu börn Trump vinni þegar fyrir viðskiptaveldi hans. Reince Priebus, formaður landsnefndar Repúblikanaflokksins sem Trump hefur skipað sem starfsmannastjóra Hvíta hússins, vildi ekki staðfesta eða hrekja hvort að ætlun verðandi forsetans væri að fela börnum sínum reksturinn eða hvort hann yrði færður inn í sérstakan sjóð sem óháðir aðilar sæju um að stjórna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert