Stal gullfötu um hábjartan dag

Maðurinn með svörtu gullfötuna í fanginu. Hann gekk burt með …
Maðurinn með svörtu gullfötuna í fanginu. Hann gekk burt með hana í gegnum mannþröngina á Manhattan um hábjartan dag. skjáskot/CBS

Lögreglan í New York hefur birt upptökur úr öryggismyndavélum sem sýna mann nokkurn sem valsaði burt með fötu fulla af gulli sem skilin hafði verið eftir eftirlitslaus í augnablik. Maðurinn og fatan eru enn ófundin en verðmæti gullsins er sagt nema 1,6 milljónum dollara.

Þjófnaðurinn átti sér stað á miðri Manhattan-eyju um hábjartan dag. Öryggisvörður hafði brugðið sér inn í geymslurými brynvarins flutningabílsins og skilið fötuna eftir eftirlitslausa í örstutta stund. Lögreglan segir að maðurinn sem greip fötuna sem innihélt gullflögur hafi líklega ekki vitað hvað var í henni en líklega grunað sitt.

„Ég held að hann hafi bara séð tækifæri, tekið fötuna og gengið í burtu,“ segir Martin Pastor, rannsóknarlögreglumaður við WNBC-TV sem birti upptökuna á þriðjudag. Þjófnaðurinn átti sér stað 29. september.

Maðurinn er talinn vera á sextugsaldri. Á upptökunum sést hann ganga rólega í gegnum mannþröngina. Hann tekur sér meðal annars hvíld til að ná andanum enda er fatan þung, tæp 40 kíló. Myndavélarnar misstu svo sjónar á honum á horni 48. strætis og 3. breiðstrætis.

Pastor segir að lögreglu gruni að maðurinn sé í Flórída. Flutningafyrirtækið segist bjóða þeim sem getur gefið upplýsingar um manninn 100.000 dollara í fundarlaun ef það leiði til þess að gullið skili sér samkvæmt frétt CBS.

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert