Tendruðu ljós jólatrésins í hinsta sinn

Obama-fjölskyldan tendraði ljósin á jólatrénu í National Mall-garðinum í Washington-borg í síðasta skipti sem forsetafjölskylda Bandaríkjanna í gærkvöldi. Forsetinn notaði tækifærið og hvatti landsmenn til að elska og virða annað fólk, óháð trú þess og kynþætti.

Tendrun þjóðarjólatrésins í Ellipse-forsetagarðinum á National Mall, rétt hjá Hvíta húsinu, hefur verið árlegur viðburður allt frá árinu 1923, að því er kemur fram í frétt Huffington Post. Auk forsetans, eiginkonu hans Michelle og dóttur þeirra Söshu tóku tónlistarmennirnir Kelly Clarkson, Marc Anthony og fleiri þátt í athöfninni.

„Þetta eru skilaboð um einingu, skilaboð um velsæmi og skilaboð um von sem fer aldrei úr tísku. Það er eitthvað sem við þurfum mjög á að halda í dag. Eftir átta ár sem forsetinn ykkar þá trúi ég ennþá að það sé mun fleira sem sameinar okkur en sundrar,“ sagði Obama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert