Demókratar ætla að gjalda líku líkt

Bandaríska þinghúsið.
Bandaríska þinghúsið. AFP

Eftir að þingmenn Repúblikanaflokksins stöðvuðu tilnefningu Baracks Obama forseta á nýjum hæstaréttardómara í tæpt ár eru demókratar ekki á þeim buxunum að gera tilnefningum Donalds Trump lífið létt. Þeir vara við því að þeir launi repúblikönum lambið gráa við upphaf forsetatíðar Trump.

Obama tilnefndi Merrick Garland sem eftirmann Antonin Scalia í hæstarétt Bandaríkjanna eftir að sá síðarnefndi lést í febrúar. Repúblikanar sem hafa meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings neituðu hins vegar að svo mikið sem hefja skipunarferlið. Töldu þeir að landsmenn ættu að fá að segja hug sinn um val á nýjum hæstaréttardómara í forsetakosningum.

Samtöl blaðamanna Politico við öldungadeildarþingmenn Demókrataflokksins benda til þess að repúblikanar fái nú að kenna á eigin meðali þegar tilnefningar Trump í hin ýmsu embætti koma á borð þingsins á næsta ári.

„Fortíðin er nútíðin og þú uppskerð eins og þú sáir. Þetta eru margtuggin orðatiltæki en þau eru virkilega sönn hér,“ segir Dianne Feinstein, þingmaður demókrata frá Kaliforníu og verðandi hæst setti fulltrúi flokksins í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar.

Gæti tekið margar vikur að staðfesta ráðherrana

Ástæðuna segja þeir þó ekki vera hefnd heldur þarfnist sumar tilnefningar Trump ítarlegrar skoðunar í þingnefndum áður en hægt sé að staðfesta þær.

„Það er búið að verðlauna þá fyrir að stela hæstaréttardómara. Ætlum við að fara að hjálpa þeim að staðfesta kandídata þeirra sem eru margir vanhæfir? Þetta eru ekki hindranir, þetta eru ekki flokkadrættir, þetta er bara skylda til að komast að því hvað þeir myndu gera í þessum embættum,“ sagði Sherrod Brown, öldungadeildarþingmaður frá Ohio.

Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni og einfaldur meirihluti dugir til að staðfesta tilnefningar forsetans í öll embætti nema eitt. Demókratar geta því ekki stöðvað tilnefningarnar, aðeins hægt verulega á þeim, meðal annars með því að krefjast atkvæðagreiðslna um hverja og eina þeirra. Demókratar segja líklegt að þingmenn þeirra muni gera það.

Með þessum hætti gætu demókratar hugsanlega gert það að verkum að þrjátíu klukkustunda umræður fari fram um hvern og einn ráðherra sem Trump skipar. Það gæti þýtt að það taki margar vikur fyrir Trump að fá ríkisstjórn sína samþykkta.

Sérstaklega beina demókratar spjótum sínum að Jeff Sessions sem Trump hefur skipað sem dómsmálaráðherra sinn. Bandaríkjaþing synjaði tilnefningu hans sem alríkisdómara fyrir þrjátíu árum, meðal annars vegna rasískra ummæla sem höfð voru eftir honum.

Þá er talið líklegt að demókratar muni krefjast sérstaklega ítarlegrar umræðu um tilnefningu James Mattis sem varnarmálaráðherra, Betsy DeVos sem menntamálaráðherra, Tom Price sem heilbrigðisráðherra og Steven Mnuchin sem fjármálaráðherra.

Umfjöllun Politico

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert