Verkalýðsleiðtoga hótað eftir tíst Trump

Donald Trump heimsótti verksmiðju Carrier í Indiana í síðustu viku …
Donald Trump heimsótti verksmiðju Carrier í Indiana í síðustu viku og sagðist hafa bjargað störfum þúsund starfsmanna. AFP

Leiðtogi verkalýðsfélags sem kemur fram fyrir hönd starfsmanna verksmiðju Carrier í Indiana er nýjasta fórnarlamb reiði Donalds Trump á Twitter. Trump jós óhróðri yfir leiðtogann eftir að hann hafði gagnrýnt verðandi forsetann. Í kjölfarið byrjaði hann að fá ógnandi símtöl.

Trump hreykti sér af því í síðustu viku að hafa bjargað störfum 1.000 starfsmanna verksmiðju Carrier í Indiana með því að gera samkomulag við forsvarsmenn fyrirtækisins. Í kjölfarið sakaði Chuck Jones, forseti verkalýðsfélags stáliðnaðarmanna, Trump um að ljúga. Í raun hafi störfin verið um 800 sem hefðu annars verið færð til Mexíkó eins og til stóð. Fyrirtækið hefur staðfest þá tölu.

Jones sagði að svo virtist sem að Trump væri að taka heiðurinn af því að halda 350 störfum verkfræðinga í Indiana sem stóð aldrei til að flytja þaðan. Þrátt fyrir samkomulagið missi um 550 félagar hans vinnuna. Þá njóti United Technologies, eigandi Carrier, enn mikilla skattafríðinda í Indiana sem það fékk gegn því að halda verksmiðjunni í Indiana. Það hafi ekki stöðvað áform fyrirtækisins um að flytja aðra verksmiðju í ríkinu til Mexíkó. Þar glatist 700 störf.

„Hefur staðið sig hræðilega“

Gagnrýni Jones vakti litla hrifningu hjá forsetanum verðandi sem fór á Twitter, einu sinni sem oftar, og lét verkalýðsforkólfinn heyra það.

„Chuck Jones, sem er forseti United Steelworkers 1999, hefur staðið sig hræðilega í að koma fram fyrir starfsmenn. Það er ekki skrýtið að fyrirtæki séu að flýja landið!“ tísti Trump í gær

„Ef United Steelworkers 1999 gæti eitthvað þá hefði það haldið þessum störfum í Indiana. Eyðið meiri tíma í að vinna, minni tíma í að tala. Lækkið félagsgjöld,“ skrifaði Trump ennfremur.

Sjálfur er Jones ekki á Twitter en honum bárust fréttir af því að verðandi forseti landsins væri að sverta mannorð hans á samfélagsmiðlinum. Hann segir Washington Post að hann hafi ekki tíma til að hafa áhyggjur af orðum Trump.

„Hann þarf að hafa áhyggjur af því að skipa ríkisstjórn sína og láta mig í fjandans friði,“ segir hann. Fulltrúar Trump svöruðu ekki óskum blaðsins um viðbrögð.

Skömmu eftir að tístin birtust byrjaði Jones að fá ógnandi símtöl. Þar spurði ókunnugt fólk hann hvernig bíl hann keyrði og sagði að það myndi ná honum.

„Ekkert sem segir að fólk ætli að drepa mig en þú veist, þú ættir að hafa auga með börnunum þínum. Við vitum hvernig bíl þú ekur. Eitthvað á þeim nótum,“ sagði Jones í viðtali við MSNBC. Hann segist þó ýmsu vanur á þrjátíu ára ferli og hann taki hótununum hóflega alvarlega.

Brett Voorhies, forseti Bandaríska verkamannasambandsins (AFL-CIO) í Indiana, furðar sig hins vegar á tístum Trump um Jones.

„Þessi maður fær smápeninga fyrir það sem hann gerir. Það sem hann þarf að þola er klikkað. Núna er verðandi forsetinn að sverta hann á Twitter,“ segir Voorhies við Washington Post.

Frétt Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert