„Þetta var morð“

Líkkistur þeirra sem fórust í flugslysinu.
Líkkistur þeirra sem fórust í flugslysinu. AFP

Varnarmálaráðherra Bólivíu sagði í dag að flugslysið skammt frá borginni Medellinn í síðustu viku væri ekkert annað en morð. 71 lét lífið þegar flugvél á leið frá Brasilíu til Kólumbíu hrapaði en ráðherrann sakar flugmanninn um vítavert gáleysi. 

„Þetta var greinilega ekki slys. Þetta var morð. Það sem gerðist rétt við Medellin var morð,“ sagði varnarmálaráðherrann, Reymi Ferreira, við fjölmiðlamenn í heimalandi sínu í dag.

Flugvél LaMia-flugvélagsins fórst skammt frá borginni Medellin í Kólumbíu. 22 leik­menn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoen­se voru í flug­vél­inni en þrír þeirra, vara­markvörður­inn Jak­son Ragn­ar Full­mann, 24 ára, varn­ar­maður­inn Helio Neto sem er 31 árs, og miðjumaður­inn Alan Ruschel, 27 ára, en all­ir hinir létu lífið.

LaMia-flug­fé­lagið var upp­haf­lega skráð í Venesúela, en flutti höfuðstöðvar sín­ar svo til Bóli­víu. Flugleyfið hefur verið tekið tímabundið af félaginu á meðan málið er til rannsóknar en þar er meðal annars athugað hvort flugstjórinn hafi vísvitandi lagt af stað með of lítið eldsneyti.

Ferreira gagnrýndi flugmanninn, sem lést í slysinu, fyrir að hunsa reglur sem skikkuðu hann til að taka bensín á leiðinni:

„Það er gefur auga leið að ef flugmaðurinn hefði fylgt reglum og lent í Cobija eða Bogota er mögulegt að þetta hræðilega slys hefði aldrei orðið.“

Saksóknarar í Bólivíu, Brasilíu og Kólumbíu rannsaka málið í sameiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert