Tilkynnti árás á barn og var handtekin

Skjáskot af handtökunni.
Skjáskot af handtökunni.

Lögreglumaður í Fort Worth í Texas hefur verið sendur í leyfi eftir að myndskeiði var dreift á netinu þar sem hann sést handtaka móður sem hringdi til lögreglu og tilkynnti um að ráðist hafa verið á sjö ára gamlan son hennar.

Í tilkynningu sem lögreglan birti á Twitter í gærkvöldi kemur fram að innra eftirlit lögreglunnar sé að rannsaka atvikið sem leiddi til þess að móðirin, Jacqueline Craig, og tvær dætur hennar voru handteknar, líkt og sést á myndskeiði sem var dreift á Facebook.

Craig, sem er 46 ára, er svört og eins dætur hennar en lögreglumaðurinn er hvítur á hörund.

Washington Post greinir frá því að myndskeiðið, sem er tæpar sex mínútur að lengd, sýni lögreglumanninn beina rafbyssu sinni að unglingsstúlkunum á meðan hann handtekur þær. Tæpar þrjár milljónir hafa horft á myndskeiðið og hefur því verið deilt 90 þúsund sinnum. 

Craig er kærð fyrir að veita viðnám við handtöku, segir í Star Telegram. Brea Hymond, dóttir Craig er einnig kærð fyrir að hafa veitt viðnám við handtöku. Ekki er vitað hvað kemur fram í kæru á hendur 15 ára gamallar dóttur Craig sem einnig var handtekin af sama tilefni.

Lee Merritt, verjandi mæðgnanna, segir að hann fari fram á að kærur á hendur þeim verði felldar niður strax enda séu þær uppspuni einn.

Hann segir að reka eigi lögreglumanninn úr starfi og eins verði hann saksóttur fyrir framkomu sína og ofbeldi í garð skjólstæðinga hans. Jafnframt að upphafsmaður að þessu öllu, nágranni, sem réðst á sjö ára gamalt barn, verði saksóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert