Tilurð „gullsturtu“-skýrslunnar

Trump var ómyrkur í máli þegar spurt var um skýrsluna …
Trump var ómyrkur í máli þegar spurt var um skýrsluna og innihald hennar á blaðamannafundi í dag. Hann vandaði þeim fjölmiðlum sem fjallað hafa um gögnin ekki kveðjurnar. AFP

Skýrslan sem Buzzfeed birti í gær um meint tengsl Donald Trump við stjórnvöld í Moskvu á rætur sínar að rekja til andstæðinga-rannsókna á meðan forval repúblikana stóð yfir en hefur nú ratað í heimsfréttirnar og neytt bæði Trump og embættismenn í Kreml til að gefa út yfirlýsingar um málið.

Frétt mbl.is: Trump tekur slaginn við blaðamenn

Guardian greinir frá því að í Washington sé rannsóknariðnaður sem gerir út á það að grafa upp upplýsingar um stjórnmálamenn og hagsmuni þeirra. Þeir sem starfa við þennan iðnað eru oftar en ekki blaðamenn og fyrrverandi starfsmenn öryggisstofnana.

Í frétt miðilsins segir að umrædd fyrirtæki séu ekki alltaf upplýst um fyrir hvern þau eru að vinna en verkbeiðnirnar komi t.d. í gegnum lögmannsfyrirtæki. Í þessu tilviki var rannsóknarfyrirtæki beðið um að afla gagna um Donald Trump fyrir andstæðinga hans í áðurnefndu forvali.

Fyrirtækið fékk til liðs við sig undirverktaka sem sérhæfir sig í öllu sem tengist Rússlandi; evrópskan fyrrverandi gagnnjósnara með sértæka þekkingu á rússnesku leyniþjónustunni.

Þegar undirverktakinn hóf störf var forvalið hins vegar yfirstaðið. Verkkaupandinn var hættur í kosningakapphlaupinu en rannsóknarfyrirtækið hafði fundið nýjan kaupanda. Sá var demókrati.

Guardian segir ekki vitað hvort viðkomandi starfaði fyrir Hillary Clinton eða Demókrataflokkinn.

Frétt mbl.is: Rússar segja ekkert hæft í ásökununum

Frétt mbl.is: „Pólitískar nornaveiðar“

Í júlí sl. hafði undirverktakinn aflað talsverða upplýsinga frá rússneskum heimildarmönnum. Ekki bara í Moskvu, heldur hafði hann einnig sett sig í samband við olígarka á Vesturlöndum.

Hann skilaði skýrslu sinni en ákvað, innihaldsins vegna, að afhenda fyrrverandi kollegum sínum hjá bandarísku alríkislögreglunni afrit. Þá er talið að hann hafi einnig látið öryggisyfirvöldum í heimalandi sínu í té eintak.

Þegar leið á haust óskaði alríkislögreglan eftir frekari upplýsingum en undirverktakinn fékk engar fregnir af rannsókn málsins. Alríkislögreglan reyndist þvert á móti upptekin af rannsókn sinni á tölvupósthneyksli Hillary Clinton.

Spæjarinn var uggandi yfir því að verið væri að hylma yfir málið og ákvað að afhenda blaðamönnum skýrsluna. Hann átti fund með David Corn, ritstjóra Mother Jones í Washington, en miðillinn sagði frá tilvist gagnanna í lok október.

Frétt mbl.is: Býður milljón fyrir „gullsturtuna“

Enn heyrðist ekkert frá alríkislögreglunni en í nóvember rötuðu gögnin í upplýsingapakka um afskipti Rússa sem kynntur var Barack Obama og Donald Trump.

Hinn 18. nóvember hófst árleg öryggismálaráðstefna í Halifax í Kanada. Hana sótti öldungadeildarþingmaðurinn John McCain, sem var kynntur fyrir háttsettum diplómata sem hafði séð skjölin, þekkti heimildarmanninn og taldi hann áreiðanlegan.

Buzzfeed ákvað að birta skýrslu undirverktakans í heild sinni, með …
Buzzfeed ákvað að birta skýrslu undirverktakans í heild sinni, með þeim fyrirvara að ekki væri hægt að færa sönnur á það sem þar kæmi fram. Óvíst er hvort Buzzfeed-útgáfan er sú eina sem til er. AFP

McCain varð mikið um að heyra um efni skýrslunnar og sendi fulltrúa sinn til að hitta skýrsluhöfundinn, þ.e. undirverktakann.

Fundur var ákveðinn á flugvelli í ótilgreindri borg í ótilgreindu landi og var sendiboða McCain sagt að leita að manni með eintak af Financial Times. Undirverktakinn tók sendiboðann með sér heim, þar sem þeir ræddu skjölin og uppruna þeirra.

Innan 24 stunda var skýrslan komin í hendur McCain en sendiboðinn sagði ómögulegt að sannreyna innihald hennar án sérstakrar rannsóknar. McCain sagðist tregur til að blanda sér í málið og hafði áhyggjur af því að það yrði túlkað sem hefnd gegn Trump.

Hinn 9. desember sl. átti McCain hins vegar fund með James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar, og afhenti honum gögnin. McCain staðfesti í yfirlýsingu í morgun að hann hefði afhent Comey skjölin en sagði aðkomu sína ekki ná lengra.

Guardian segir óljóst af hverju Obama og Trump fengu kynningu á skýrslunni áður en rannsókn á efni hennar var lokið. Það kann að hafa verið til að koma í veg fyrir ásakanir á hendur FBI um yfirhylmingu eða vegna þess að rannsakendur töldu eitthvað til í því sem fram kemur í skýrslunni.

Óljóst er hvaðan Buzzfeed fékk þá útgáfu sem miðillinn birti. Aðrir höfðu fengið eintök en áveðið að birta ekki skýrsluna, þeirra á meðal Guardian. Mögulegt er að kaupandi skýrslunnar hafi lekið henni, eða einhver sem hafði milligöngu um viðskiptin milli verkkaupans og undirverktakans.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert