Játar að hafa drekkt börnum sínum

AFP

Móðir hefur játað að hafa myrt þrjú börn sín í Ástralíu árið 2015. Börnin, fjögurra ára tvíburar og eins árs gamall drengur, drukknuðu þegar hún ók bifreið sinni í vatn í Melbourne 8. apríl 2015. Börnin voru ósynd en fjórða barnið, sex ára gömul stúlka, lifði af.

Akon Guode, 37 ára, játaði á sig morðin fyrir rétti í Victoria í dag. Faðir barnanna, Joseph Manyang, segir að Guode hafi lýst því skömmu áður en hún ók í vatnið með börnin að hana svimaði og liði ekki vel. Hann segir að Guode sé ástrík móðir sem myndi aldrei skaða börn sín viljandi. Hins vegar segir aðalvitni lögreglunnar að Guode hafi þennan sama dag lýst því yfir að hún ætlaði að drepa börn sín.

Fólk sem átti leið hjá og slökkviliðsmenn reyndu í örvæntingu að bjarga börnunum út úr bílnum skömmu eftir að hann hafnaði í Gladman-vatni. 

Alexandra Colson-Ing var vitni að því þegar Guode ók bifreiðinni í vatnið og segir að svo hafi virst sem hún gerði það af ásettu ráði. Colson-Ing heyrist á upptöku símtals til Neyðarlínunnar segja að bílnum hafi verið ekið á fullri ferð í vatnið en þegar hún kemur nær segir hún: „Þau fljóta, þau fljóta í vatninu. Þau eru ósynd.“

Frétt BBC

Frétt AGE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert