Uber semur um skaðabætur vegna villandi auglýsinga

AFP

Leigubílaþjónustan Uber hefur fallist á að greiða bílstjórum 20 milljónir dala í skaðabætur vegna misvísandi auglýsingar. Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna sótti málið á hendur fyrirtækinu og óljóst er hvernig Uber ætlar að koma skaðabótunum til bílstjóranna.

Frá janúar og fram í mars 2015 auglýsti Uber á Craigslist og vonaðist til að laða nýja bílstjóra að þjónustunni með því að heita tímakaupi. Í Boston sagði fyrirtækið til að mynda að ökumenn myndu þéna 25 dali á klukkustund.

Sannleikurinn var sá að færri en 10% ökumanna Uber í Boston náðu umræddum tekjum. Þá sagði Uber að ökumenn UberX í New York myndu þéna 90.000 dali á ársgrundvelli og ökumenn í San Francisco 74.000 dali en samkvæmt viðskiptastofnuninni voru meðaltekjur bílstjóranna nærri 29.000 og 21.000 dölum lægri.

Þrátt fyrir að hafa samið um skaðabætur hefur Uber ekki viðurkennt sök í málinu.

Ítarlega frétt má finna hjá BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert