Sprengdu sig upp í Jedda

AFP

Tveir hryðjuverkamenn sprengdu sig upp í borginni Jedda í Sádi-Arabíu í dag eftir að hafa skipst á skotum við sérsveitarmenn. Félagi þeirra var handtekinn í aðgerð lögreglunnar annars staðar í borginni.

Lögreglan gerði áhlaup á hús sem mennirnir héldu til í en þar voru framleidd sprengjubelti og annar búnaður til að nota við hryðjuverk. Mennirnir skutu á lögreglu sem svaraði á sama hátt, samkvæmt tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu.

Í stað þess að gefast upp virkjuðu þeir sprengjubelti sín, segir í tilkynningunni. Á myndum sem birtar voru á Twitter sést að eldur logar í húsinu.

Þriðji maðurinn er talinn tengjast tvímenningunum sem sprengdu sig upp. Hann var handtekinn ásamt pakistanskri konu sem hann sagði að væri eiginkona sín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert