Ungur maður myrtur í Stokkhólmi

Sænska lögreglan.
Sænska lögreglan. AFP

Karlmaður á þrítugsaldri lést á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi í gærkvöldi eftir að hafa leitað þangað fyrr um kvöldið með skotáverka.

Lögreglan í Stokkhólmi hefur ekki gefið miklar upplýsingar um málið en um 25 ára gamlan mann er að ræða og hann hafi komið á sjúkrahúsið án vitundar lögreglu og sjúkraflutningsfólks.

Lena Baakki, varðstjóri í lögreglunni í Stokkhólmi, segir að nokkrir hafi verið yfirheyrðir í tengslum við málið en enginn þeirra liggi undir grun um að eiga aðild að morðinu.

Samkvæmt frétt Aftonbladet segir ökumaður bílsins sem flutti særða manninn á sjúkrahús að þeir hafi verið eltir af öðrum bíl og skotið hafi verið á þá af fólki í þeim bíl. Fleiri en eitt skotvopn hafi verið notað í árásinni.

Heimildir Aftonbladet herma að lögreglan telji sig vita hvað gerðist áður en maðurinn var skotinn.

Hópur manna, sem þekkjast allir, hafi sammælst um að hittast í Sundbyberg og komu þangað á tveimur bílum. Bílstjórinn sem kom með særða manninn á sjúkrahús segir að skotið hafi verið á þá skammt frá sjúkrahúsinu. Skot úr tveimur byssum hafi hæft hann, þar á meðal eitt í höfuðið.

Heimildir Aftonbladet herma að tengsl séu með skotárásinni í gærkvöldi og skotárás daginn áður í Fagersjö í suðurhluta Stokkhólms en þar leitaði ungur maður skjóls á pizzastað eftir að hafa verið skotinn í bakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert