Eldri fangar vilja heldur sitja inni

Konur deila máltíð hjá miðstöð sem hefur það hlutverk að …
Konur deila máltíð hjá miðstöð sem hefur það hlutverk að aðstoða fyrrverandi fanga við að fóta sig á ný utan veggja fangelsisins. AFP

Allir dagar eru eins. Hann vaknar klukkan 6.45, borgðar morgunmat 20 mínútum síðar, og mætir til vinnu klukkan 8, stundvíslega. En hann er ekki hinn hefðbundni japanski launamaður. Þessi maður er á níræðisaldri og dvelur í fangelsi; stofnun strúktúrs og fullvissu sem hann vill ekki yfirgefa.

„Ég veit ekki hvers konar lífi ég ætti að lifa eftir að ég losna. Ég mundi fyllast áhyggjum af heilsu minni og fjárhag þegar ég færi,“ segir fanginn í samtali við AFP. Hann afplánar dóm vegna tilraunar til þjófnaðar í Fuchu-fangelsinu í Tókíó en vill ekki koma fram undir nafni.

Aðstæður hans eru langt í frá einstakar: yfir Japan gengur alda glæpa sem framdir eru af eldra fólki og fangelsin líkjast meira dvalarheimilum fyrir aldraða en betrunarstofnunum.

Ástandið er orðið svo aðkallandi að stjórnvöld hafa samþykkt áætlun sem felur í sér að heilbrigðisstarfsfólk verður sent út af örkinni til að starfa í um helmingi af 70 fangelsum Japan frá og með apríl. Kostnaður vegna verkefnisins nemur tugum milljóna.

Eldri fangar sem dvelja í Fuchu og öðrum fangelsum Japan …
Eldri fangar sem dvelja í Fuchu og öðrum fangelsum Japan finna huggun og öryggi í því að geta gengið að því vísu að fá skjól, mat og heilbrigðisþjónustu innan veggja stofnunarinnar. AFP

Árið 2015 voru nærri 20% þeirra sem voru handteknir eða yfirheyrðir af lögreglu 65 ára eða eldri. Þeir voru 5,8% árið 2000, samkvæmt japönskum lögregluyfirvöldum. Flestir eru grunaðir um smáglæpi á borð við þjófnað úr verslunum.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar má rekja aukinn fjölda glæpa meðal eldri borgara til efnahagsástandsins, hækkandi aldurs þjóðarinnar og hreinnar græðgi.

Fyrirsjáanleikinn betra en hitt

„Það er vandamál að starf fangavarða er að verða meira eins og hjúkrunarvinna,“ segir Shinsuke Nishioka, starfsmaður dómsmálaráðuneytisins. Hann segir starfið ekki lengur snúast um það að koma í veg fyrir að fangarnir flýi.

Starfsmenn Fuchu, sem er stærsta fangelsi Japan sem eingöngu er ætlað karlkyns föngum, þurfa að aðstoða suma fangana við að skipta um bleyju og baðast.

„Eldri fangar heyra stundum illa,“ segir Nishioka. „Þeir skilja ekki fyrirmæli og verða að fara oft á salernið. Það er erfitt. Við munum þurfa fleiri fangaverði.“

Þáttur í fyrrnefndu átaki stjórnvalda er að senda íþróttafræðinga í fangelsin til að mæta breyttum þörfum.

Terumi Obata segir meiri líkur á því að menn snúi …
Terumi Obata segir meiri líkur á því að menn snúi aftur á glæpabrautina ef þeir fá ekki nægilegan stuðning þegar þeir losna úr fangelsi í fyrsta sinn. AFP

Í Japan er fangelsislífið langt í frá auðvelt; fangarnir mega ekki tala saman á meðan þeir vinna, þeir eru tilneyddir til að ganga í einfaldri röð, og strangar reglur gilda um böð.

Jafnvel þegar efnt er til viðburða verða fangarnir að sitja þráðbeinir og með hendurnar í kjöltunni. Þá er vanalega bannað að klappa.

Lífið er tilbreytingasnautt, og eðli málsins samkvæmt háð ýmsum takmörkunum, en margir velja fyrirsjáanleikann, þar sem þeir geta gengið að því að fá skjól, mat og læknisþjónustu. Það er meira en bíður margra utan veggja fangelsisins.

„Í fangelsinu hafa þeir að minnsta kosti þak yfir höfuðið og öruggt aðgengi að máltíðum,“ segir Tina Maschi, prófessor við Fordham University Graduate School of Social Service.

Yukie Kuwahara, sem hefur umsjón með velferðarmálum hjá Fuchu, segir fangana venjuelga fyllast kvíða þegar sá dagur nálgast þegar þeir geta um frjált höfuð strokið.

„Í fangelsinu þurfa þeir ekki að hafa áhyggjur af hversdagslegum hlutum,“ segir hún.

Lífið erfiðara fyrir utan fangelsisveggina

Tölfræðilega eru miklar líkur á því að brotamenn eldri en 65 ára brjóti aftur af sér: samkvæmt opinberum gögnum eru um 70% eldri fanga komin aftur bakvið lás og slá innan við fimm árum eftir að þeim er sleppt lausum.

„Ástæðan fyrir því að margir eldri fangar snúa aftur er að það er erfitt fyrir þá að standa á eigin fótum fjárhagslega,“ segir Akio Doteuchi, vísindamaður vð NLI-rannsóknarmiðstöðina.

„Það er ákaflega erfitt að tryggja sér húsnæði og vinnu eftir að maður snýr aftur út í samfélagið. Og þeir eru einangraðir félagslega þar sem fleiri og fleiri búa einir,“ bætir hann við.

Við inngang Fuchu-fangelsisins í Tókíó.
Við inngang Fuchu-fangelsisins í Tókíó. AFP

Fuchu býður föngunum aðstoð, t.d. þjálfun fyrir starfsviðtöl og fyrirlestra um félagslega aðstoð. Þá hafa verið sett á fót tímabundin húsnæðisúrræði fyrir hina fyrrverandi fanga á meðan þeir eru að fóta sig á ný utan fangelsisins.

Einn slíkur staður, Royzenkai í Tókíó, býður eldri fyrrverandi föngum upp á tölvuþjálfun, námskeið í mannasiðum, og daglega máltíð. Fangarnir geta dvalið allt að 16 vikur á Royzenkai.

Framkvæmdastjórinn Terumi Obata segir fjóra mánuði hins vegar alltof stuttan tíma og telur líkurnar á að menn snúi aftur á glæpabrautina miklar ef þeir fá ekki almennilegan stuðning.

„Það er enginn vafi á því að fjárhagslegur stöðugleiki er mikilvægastur,“ segir hann. „En að hjálpa fyrrverandi föngum að byggja upp traust og að kenna þeim að það er til gott fólk er nauðsynlegt.“

Obata segir marga fangana hafa verið misnotaða eða alist upp á brotnum heimilum. Hann segir að brú milli fangelsislífsins og veraldarinnar fyrir utan geta skipt sköpum.

Kona sem afplánaði 15 ára fangelsisdóm fyrir morð segist aldrei …
Kona sem afplánaði 15 ára fangelsisdóm fyrir morð segist aldrei ætla að lenda aftur í fangelsi og langar að láta hluta launa sinna renna til fjölskyldu fórnarlambs síns. AFP

„Lífið er erfiðara fyrir utan,“ segir fyrrverandi fangi í samtali við AFP. Hún er á sjötugsaldri og afplánaði 15 ára fangelsisdóm fyrir morð.

„Allt hefur breyst, eins og farsímar og sjálfvirkar miðavélar“ á lestarstöðum, segir hún.

Hún fékk störf við ræstingar eftir að hafa dvalið í úrræði á borð við Royzenkai og segist hafa snúið við blaðinu. Hún hefur heitið því að enda aldrei aftur í fangelsi.

„Ég vil vinna reglulegar svo ég geti látið hluta launanna renna til fjölskyldu fórnarlambsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert