Óttast hungursneyð í Jemen

Ástandið kemur einna harðast niður á ungum börnum.
Ástandið kemur einna harðast niður á ungum börnum. AFP

Stephen O'Brien, yfirmaður mannúðar- og neyðarhjálpar hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að ástandið í Jemen sé skelfilegt, en þar ríkir neyðarástand og óttast hann hungursneyð í landinu á þessu ári.

Stríð hefur geisað í landinu frá því hernaðaraðgerðir, sem Sádi-Arabar leiða, hófust með loftárásum í mars 2015 í þeim tilgangi að hrekja Huthi-fylkingu sjíamúslíma, sem nýtur stuðnings Írana, sem höfðu náð höfuðborginniSanaa og fleiri borgir á sitt vald.

Í Jemen lætur eitt barn lífið á 10 mínútna fresti …
Í Jemen lætur eitt barn lífið á 10 mínútna fresti af völdum sjúkdóma eða vannæringar sem hægt er að koma í veg fyrir. AFP

O'Brian greindi öryggisráði SÞ frá því í gær, að stríðsátökin í Jemen ógnuðu mataröryggi í landinu, og raunar væri þetta versta neyðarástand af þeim toga í heiminum í dag. 

„Verði ekki gripið til aðgerða þegar í stað þá er útlit fyrir hungursneyð árið 2017.“

Um það bil 14 milljónir íbúa, sem er tæplega 80% þjóðarinnar, þurfa á mataraðstoð að halda. Helmingur af þeim búa við alvarlegan skort að sögn O'Brien.

Þá segir hann að a.m.k. tvær milljónir þurfi á neyðarmatvælaaðstoð að halda til að lifa af. 

Um 80% íbúa landsins búa við matarskort.
Um 80% íbúa landsins búa við matarskort. AFP

Ástandið er sérstaklega slæmt fyrir börn, en um 2,2 milljónir ungbarna glíma við alvarlega bráðavannæringu. Það er 53% aukning samanborið við seinni hluta árs 2015. 

O'Brien segir að á 10 mínútna fresti láti eitt barn undir 10 ára aldri lífið í Jemen af völdum sjúkdóma eða vannæringar sem hægt er að koma í veg fyrir. 

Þungvopnaður hermaður við alþjóðaflugvöllinn í höfuðborginni Sanaa.
Þungvopnaður hermaður við alþjóðaflugvöllinn í höfuðborginni Sanaa. AFP

Aðgerðir Sádi-Araba hafa leitt til þess að flugvöllurinn í Sanaa er lokaður. Það hefur mikil áhrif á íbúa landsins því ekki er hægt að fljúga með lyf til landsins og Jemenar geta ekki leitað sér læknisaðstoðar í öðrum löndum. 

O'Brien segir að allt hveiti í landinu geti klárast innan fárra mánaða því erlendir bankar séu hættir að samþykkja millifærslur frá jemenskum viðskiptabönkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert