Berjast saman gegn Ríki íslams

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, áttu …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, áttu símafund í dag. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti ákváðu í dag að byggja samband ríkjanna tveggja á „jafningjagrundvelli“ til þess að koma á „alvöru samhæfingu“ í baráttunni gegn Ríki íslams í Sýrlandi.

Þetta hefur AFP eftir rússneskum stjórnvöldum en leiðtogarnir ræddust við í síma í dag. Rússnesk stjórnvöld greindu jafnframt frá því að leiðtogarnir hefðu báðir lýst yfir áhuga og vilja til þess að funda saman.

„Báðir aðilar lýstu yfir vilja til að vinna saman til að koma á stöðugleika og þróa rússneskt-bandarískt samstarf á uppbyggilegan hátt, sem jafningjar og til hagsbóta fyrir báða,“ sagði Pútín í yfirlýsingu eftir símafund forsetanna tveggja, en þetta var fyrsti símafundur þeirra tveggja síðan Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá rússneskum stjórnvöldum ræddust leiðtogarnir við á jákvæðum nótum. Ýmislegt var rætt, meðal annars vaxandi ólga á Kóreuskaganum, Ísrael-Palestínu-deilan, íranski kjarnorkusamningurinn, Úkraína og verslunarsamband þjóðanna. Helsta umræðuefnið var þó baráttan gegn alþjóðlegum hryðjuverkahreyfingum að því er AFP hefur eftir Rússum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert