Komið í veg fyrir árás á Louvre

Mikil öryggisgæsla er við Louvre-safnið í París líkt og aðrar …
Mikil öryggisgæsla er við Louvre-safnið í París líkt og aðrar opinberar byggingar í borginni. AFP

Franskur hermaður, sem var á vakt við Louvre-listasafnið í París, skaut vopnaðan mann við safnið í morgun. 

Ekki liggur fyrir hvort árásarmaðurinn, sem var vopnaður hnífi, er á lífi né heldur hvort honum hafi tekist að særa einhvern áður en hann var skotinn. 

Samkvæmt frétt Le Parisien er árásarmaðurinn alvarlega særður en atvikið átti sér stað um klukkan 10 að staðartíma, klukkan 9 að íslenskum tíma. 

Búið er að rýma safnið og girða af svæðið í kringum safnið sem er einn helsti áfangastaður ferðamanna í borginni en milljónir sækja safnið heim á hveru ári. Um 250 gestir voru á Louvre safninu þegar atvikið átti sér stað.

Svo virðist sem maðurinn hafi verið í verslunarmiðstöðinni undir Louvre safninu, ef marka má fyrstu fréttir franskra fjölmiðla. Innanríkisráðuneytið greinir frá atvikinu á Twitter en þar kemur fram að það hafi verið á Louvre-svæðinu. Heimildir AFP fréttastofunnar herma að árásarmaðurinn hafi ráðist á hermanninn með hnífi og hann skotið hann í varnarskyni. 

Uppfært klukkan 10:15 - árásarmaðurinn var vopnaður sveðju og kallaði „Allahu Akbar" eða „guð er góður“ í árásinni. Hann var með tvo bakpoka á sér en sprengjusveit lögreglunnar hefur lokið rannsókn á innihaldi pokanna og er ekkert sprengiefni þar að finna. 

Lögreglustjórinn í París, Michel Cadot, segir að ljóst sé að tilgangur árásarmannsins sé augljóslega að valda sem mestum harmi. Bæði Cadot og Bernard Cazeneuve, forsætisráðherra, telja að maðurinn hafi ætlað sér að fremja hryðjuverk. 

Einn hermaður særðist í árásinni en árásarmaðurinn er með fimm skotsár. Hann er á lífi en er mjög alvarlega særður. 

Ráðuneytið biður fólk um að dreifa ekki fölskum upplýsingum varðandi atvikið og að fylgjast frekar með upplýsingum varðandi málið frá opinberum aðilum. 

Mikill viðbúnaður hefur verið í Frakklandi undanfarin tvö ár vegna ítrekaða hryðjuverkaárása í landinu. Vopnaðir lögreglumenn og hermenn eru mjög sýnilegir á götum úti og við allar opinberar byggingar, svo sem söfn. 

Lovre, sem er fyrrverandi konungshöll, er í hjarta Parísar en meðal verka á safninu er sennilega þekktasta listaverk heims, Mona Lisa, auk fjölmargra þekkta listaverka. Við safnið er einnig verslunarmiðstöð og nokkur sýningarrými þar sem haldar eru sýningar og listamessur.

Lögreglan og hermenn eru á vakt í grennd við Louvre-safnið …
Lögreglan og hermenn eru á vakt í grennd við Louvre-safnið í París. AFP
Við Louvre í morgun.
Við Louvre í morgun. AFP
Lögregla á vakt skammt frá Louvre í morgun.
Lögregla á vakt skammt frá Louvre í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert