Enn stranda hvalir á Nýja-Sjálandi

Á föstudag voru 416 hvalir strand. Um 300 drápust. Nú …
Á föstudag voru 416 hvalir strand. Um 300 drápust. Nú eru 200 fastir. AFP

Um 200 grindhvalir lágu eftir strandaðir þegar fjaraði við Farewell Spit í Golden Bay á Nýja-Sjálandi í dag. Ákveðið hefur verið að aðhafast ekkert varðandi strandið þar til birtir á ný, þar sem það þykir of áhættusamt að reyna að koma hvölunum á flot í myrkri.

Dýraverndunaryfirvöld og sjálfboðaliðar hafa staðið í ströngu frá því að 416 hvalir strönduðu aðfaranótt föstudags. Flestir þeirra drápust en um 100 var bjargað. Syntu þeir til liðs við 200 aðra hvali undan ströndinni.

Björgunarmenn óðu sjóinn upp að háls til að bjarga hvölunum og mynduðu vegg til að beina þeim á haf út og koma í veg fyrir að hinir 200 syntu í átt að grynningunum.

Þrátt fyrir hetjulegar tilraunir syntu sem fyrr segir um 200 hvalir inn flóann í dag og strönduðu þegar fjaraði, um 3 km frá staðnum þar sem fyrri hópurinn lá fastur.

Aflífa þurfti um 20 hvali velferðar þeirra vegna, að sögn yfirvalda. Sjálfboðaliðar segja þá sjón sem blasir við í flóanum afar dapurlega.

Ekki er vitað hvað veldur ágangi hvalanna á grynningarnar.

Sjálfboðaliðar freista þess að koma strönduðum hval aftur á flot.
Sjálfboðaliðar freista þess að koma strönduðum hval aftur á flot. AFP
Reynt er að kæla hvalina í hitanum.
Reynt er að kæla hvalina í hitanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert