Barn skotið í beinni á Facebook

Lögreglan rannsakar vettvang árásarinnar í Chicago.
Lögreglan rannsakar vettvang árásarinnar í Chicago. AFP

Tveggja ára drengur og 26 ára frændi hans voru skotnir til bana í beinni útsendingu á Facebook. Árásin var gerð í Chicago. Frændurnir voru við þriðja mann í bíl sem setið var um og skotið á. Drengurinn sat í aftursæti bifreiðarinnar. Hann var skotinn í höfuðið og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. 

Hann er þriðja barnið sem er skotið til bana í borginni á fjórum dögum, segir í frétt Sky sjónvarpsstöðvarinnar um málið.

Frændi hans og frænka sátu í framsætum bílsins. Þau voru að sýna bílferðina í beinni útsendingu á Facebook. Þau voru að syngja með lagi í útvarpinu er skotið var á bílinn með fyrrgreindum afleiðingum.

Konan lifði árásina af. Hún er ólétt og varð barn hennar ekki fyrir skaða. Á upptökunni má heyra hana öskra og forða sér út úr bílnum.

Lögreglan segir að frændi litla drengsins, sem sat í framsæti bílsins, hafi verið skotmark árásarmannanna. Árásin er sögð tengjast stríði glæpagengja í borginni.

„Þessu verður að ljúka,“ hefur Sky eftir lögreglustjóranum Eddie Johnson. Hann sagði að börn ættu ekki að líða fyrir vangetu stjórnvalda til að hafa hendur í hári síbrotamanna. „Ég er kominn með nóg og ég veit að íbúar Chicago eru búnir að fá nóg.“

Á laugardag var ellefu ára stúlka skotin í höfuðið í bíl í suðurhluta borgarinnar. Hún lést á sjúkrahúsi. Þá var tólf ára stúlka skotin sama dag þar sem hún var að leika sér á skólalóð. Hún er nú látin.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst yfir áhyggjum sínum á vaxandi ofbeldi í Chicago. Hann hefur hótað því að senda alríkislögregluna á vettvang. 

Það sem af er ári hafa 63 morð verið framin í borginni. Á síðasta ári voru morðin 750 og skotárásirnar 3.500.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert