Fékk 18 mánaða fangelsi fyrir manndráp

Ísraleski hermaðurinn Elor Azaria fyrir utan dómshúsið ásamt móður sinni. …
Ísraleski hermaðurinn Elor Azaria fyrir utan dómshúsið ásamt móður sinni. Hann var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að skjóta til bana særðann palestínskan árásarmann. AFP

Ísraelskur hermaður sem skaut til bana særðan palestínskan árásarmann var í dag dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Málið, sem hefur vakið mikla athygli í Ísrael, hefur klofið þjóðina.

Hermaðurinn Elor Azaria var fundinn sekur um manndráp í síðasta mánuði og úrskurðaði dómari lengd refsingarinnar í dag. Azaria skaut hinn 21 árs gamla Abdul Fatah al-Sharif í borginni Hebron á Vesturbakkanum í mars á síðasta ári.

Azaria hafði sagt við félaga sinn að Sharif, sem hafði stungið annan hermann, „ætti skilið að deyja“.

Yfirmenn ísraelska hersins hafa fordæmt drápið, en sumir aðrir hafa lofað gjörðir hans.

Málið hefur vakið miklar deilur í Ísrael um það hvenær og hversu miklu valdi hermenn megi beita.

Viðurlögin við manndrápi eru allt að 20 fangelsisdómur, en saksóknari hafði krafist 3-5 ára dóms yfir Azaria.

Hópur stuðningsmanna Azaria var samankominn fyrir utan dómshúsið til að krefjast þess að hann yrði látinn laus samstundis. Þá hafa stjórnmálamenn úr röðum þjóðernissinna gagnrýnt dóminn og krafist þess að Azaria verði samstundis náðaður.

Yusri al-Sharif, faðir fórnarlambsins, sem hafði farið fram á lífstíðardóm, sagði dóminn hins vegar vera „brandara“ og að ísraelsk yfirvöld væru að hlæja að Palestínumönnum.  

Verjendur Azaria hafa sagt að þeir muni mögulega áfrýja dóminum, en Benjamin Netanyahu hefur áður sagst munu styðja allar ákvarðanir að náða hermanninn.

Dómarinn Maya Heller, sagði dóminn mildari í ljósi þess að þetta væri fyrsti dómur Azaria og þess að atvikið hefði átt sér stað í hernaðarumhverfi þar sem ekki hefðu verið skýr fyrirmæli um hvernig bregðast skildi við. Azaria hefði hins vegar ekki sýnt nein merki iðrunar.

Myndbandsupptöku af drápinu var dreift víða á samfélagsmiðlum í kjölfar atburðarins, en þar sést Azaria spenna gikkinn á byssu sinni og skjóta Sharif, sem liggur á jörðunni, í höfuðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert