Ók með lík á framrúðunni

Atvikið átti sér stað í Kaliforníu. Úr safni.
Atvikið átti sér stað í Kaliforníu. Úr safni. AFP

Dómstóll í Kaliforníu hefur dæmt konu í 25 ára fangelsi fyrir að hafa orðið gangandi manni að bana í umferðinni. Konan, sem ók bifreið undir áhrifum áfengis, ók rúma þrjá kílómetra á meðan lík mannsins lá á framrúðunni.

Konan, Sherri Lynn Wilkins, er 55 ára gömul og fyrrverandi meðferðarráðgjafi. Hún játaði sök í málinu en atvikið átti sér stað árið 2012. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Wilkins, sem var mjög ölvuð, stöðvaði ekki ferðina fyrr en aðrir vegfarendur höfðu af henni afskipti á umferðarljósum þar sem hálfnakið líkið lá þá á vélarhlífinni.

Maðurinn sem lést hét Phillip Moreno og var 31 árs gamall. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn.

„Hún stöðvaði ekki ferðina. Hún hringdi ekki í 911 [bandarísku neyðarlínuna]. Á sama tíma, blæddi Morenu út og hann lést á vélarhlíf bifreiðar hennar,“ sagði dómarinn. 

Saksóknarar héldu því fram að Wilkins hefði ekki gert neitt til að aðstoða Morena. Hún hafi einnig reynt að taka snöggar beygjur í þeim tilgangi að losa sig við líkið.

Wilkins viðurkenndi að hafa drukkið þrjú skot af vodka og einn bjór áður en hún settist á bak við stýrið til að aka heim. Atvikið átti sér í Torrance-hverfi Los Angeles.

Wilkins hélt því fram við réttarhöldin að henni hafi sýnst Moreno hafa stokkið í veg fyrir bifreiðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert