Eftirlit með klósettpappírnum

Klósettpappír er greinilega eftirsóknarverður í Peking.
Klósettpappír er greinilega eftirsóknarverður í Peking. Wikipedia/Neptuul

Eitt vinsælasta almenningsklósett Peking-borgar glímir við ákveðið vandamál – stuld á klósettpappír. Til þess að koma í veg fyrir stuldinn hefur verið brugðið á það ráð að afhenda ekki slíkan pappír nema fólk setji andlitið að andlitsskanna.

Samkvæmt frétt Guardian er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að eldri borgarar komi á almenningsklósettið í þeim eina tilgangi að ná sér í klósettpappír til þess að nota heima.

Nú þurfa þeir sem vilja fá pappír afhentan að standa í biðröð fyrir framan andlitsskanna. Þegar komið er að viðkomandi er honum gert að taka niður höfuðfat og gleraugu, beri viðkomandi slíkt, og stara í skannann i þrjár sekúndur. Ef skanninn samþykkir viðkomandi fær hann 60 sm af klósettpappír úthlutað.

Þeir sem koma of oft að skannanum fá synjun og ekki er hægt að koma að vélinni til þess að biðja um meiri pappír fyrr en níu mínútur eru liðnar frá síðustu úthlutun. 

Líkt og alltaf er tæknin ekki alveg fullkomin þannig að í einhverjum tilvikum hefur fólk í þörf eftir klósettpappír þurft að stara í skannann í mínútu hið minnsta sem hefur valdið ýmsum erfiðleikum enda kannski í mikilli þörf fyrir að komast á klósettið.

Eins hafa vaknað spurningar varðandi friðhelgi einkalífsins þar sem fólk kvartar á samfélagsmiðlum yfir því að fylgst sé með klósettferðum þess. 

Frétt Guardian í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert