Banna stærri raftæki í flugvélum

Flugstjórar og flugþjónar á Kennedy-flugvellinum í New York.
Flugstjórar og flugþjónar á Kennedy-flugvellinum í New York. AFP

Bandaríkin og Bretland hafa bannað stærri raftæki um borð í farþegaflugvélum sem fljúga frá sumum flugvöllum í Tyrklandi, Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

Bandarískir ráðamenn vara við því að öfgahópar leiti nýrra leiða til að ráðast á farþegaflugvélar með litlum sprengjum sem hægt er að fela í raftækjum sem eru stærri en farsímar.

Bandaríkin hafa veitt níu flugfélögum frá átta löndum frest til næstu helgar til að láta farþega til Bandaríkjanna pakka niður fartölvum, iPodum og tölvuspilum í farangurstöskur sínar sem fara ekki farþegarýmið.

Bannið hefur ekki áhrif á bandarísk flugfélög.

Bretar hafa komið á svipuðu banni og búist er við því að önnur lönd fylgi í kjölfarið. Þjóðverjar verða þó ekki þar á meðal.

Að sögn bandarískra ráðamanna er óljóst hversu lengi bannið stendur yfir. Flugfélagið Emirates sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að það eigi að framfylgja banninu að minnsta kosti til 14. október næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert