Xi hvetur til friðar

Netanyahu og Xi takast í hendur við upphaf fundar í …
Netanyahu og Xi takast í hendur við upphaf fundar í dag. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, hvatti í dag til friðar milli Ísrael og sjálfstæðrar Palestínu „eins fljótt og auðið yrði“. Hann átti fund með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, í dag en með ráðherranum í för voru 90 athafnamenn.

Um er að ræða stærstu ísraelsku viðskiptasendinefndina sem heimsótt hefur Kína.

Xi sagði Kína og Ísrael hyggjast hrinda af stað umfangsmiklum samstarfsverkefnum á sviði tækni og vísinda, vatnsbúskapar, landbúnaðar, lyfjaframleiðslu og hreinnar orku, svo eitthvað væri nefnt.

Fundurinn var þáttur í þriggja daga heimsókn Netanyahu til Kína, í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því að ríkin tóku upp stjórnmálasamband.

Kína reiðir sig á olíu frá Mið-Austurlöndum en hefur löngum forðast afskipti af deilum á svæðinu. Síðastliðið ár virðist þó hafa verið viðsnúningur frá fyrri stefnu og stjórnvöld m.a. boðist til að halda fund stríðandi aðila í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert