Blóðuga flugfreyjan ári síðar

Þessi mynd af Nidhi Chaphekar, blóðugri í stól í brottfararsalnum …
Þessi mynd af Nidhi Chaphekar, blóðugri í stól í brottfararsalnum eftir árásirnar, var birt í ótal fjölmiðlum enda lýsandi fyrir það ástand sem skapaðist á flugvellinum í Brussel eftir árásirnar. AFP

Hún lá kyrr á gólfinu í brottfararsalnum. Þorði ekki að hreyfa sig. Rykið frá tveimur sprengingum var enn í loftinu. Nidhi Chaphekar varð andlit fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í Brussel sem gerðar voru fyrir ári síðan. Mynd af henni blóðugri og í rifnum fötum á Zaventem-flugvellinum var birt í óteljandi fjölmiðlum og þótti mjög lýsandi fyrir hörmungarástandið sem skapaðist. 32 létust og meira en 300 særðust. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu ábyrgð á árásinni á hendur sér. 

Ári síðar líðan og ástand Chaphekar gjörólíkt því sem umheimurinn sá á myndinni frægu. Í viðtali við CNN rifjar hún upp þennan örlagaríka dag.

Chaphekar er flugfreyja og var á leiðinni í flug frá Brussel til Newark í New Jersey. Daginn áður hafði hún komið til borgarinnar frá Mumbai á Indlandi, þar sem hún á heima.

„Ég sá fyrstu sjálfsmorðsárásina en ég vissi ekki hvað ég var að horfa á,“ segir hún við fréttamann CNN. „Það var eins og eitthvað hefði sprungið en ég taldi að það hefði verið rafmagnsknúinn hjólastóll.“

Indverska flugfreyjan Nidhi Chaphekar við minningarathöfn í Brussel í dag …
Indverska flugfreyjan Nidhi Chaphekar við minningarathöfn í Brussel í dag ásamt eiginmanni sínum. Hún lifði árásina af en berst ennþá við eftirköst hennar. AFP

Hennar fyrstu viðbrögð voru að bjóða fram hjálp sína en samstarfsmaður hennar hélt aftur af henni.

„Á þessum fáu augnablikum sem við ræddum saman fór fólk að hlaupa í allar áttir. Fólk sem vissi ekki hvar útgangurinn var í öngþveitinu hljóp framhjá okkur. Fólk grét og fór að öskra.“

Og þá sprakk síðari sprengjan. „Ég kastaðist nokkra metra,“ segir Chaphekar. „Ég lenti á fótunum en datt svo. Þannig fékk ég skurð á höfuðið.“

Hún reyndi að hreyfa sig en áfallið var það mikið að líkaminn hlýddi ekki. „Ég leit í kringum mig en sá ekkert fyrir reykingum svo ég sagði við sjálfa mig: Sestu niður, hreyfðu þig! Þetta var svo slæmt, en ég gat ekki hreyft mig.“

Chaphekar sá hermann hlaupa fram hjá sér og bað hann um aðstoð. Með hans hjálp komst hún upp í stól. Blóð lak niður andlit hennar, hún var með brunasár og meidd á fótunum. 

Á myndinni frægu er Chaphekar með báðar fæturna uppi í stólnum. „Ég vildi reyna að stöðva blæðingarnar, þess vegna voru fætur mínir uppi á armi stólsins.“

Á meðan hún beið eftir aðstoð reyndi hún að hjálpa öðrum sem voru slasaðir. „Ég var að sýna að það væri von, að við hefðum lifað af, við myndum lifa af.“

Það var ekki fyrr en tveimur og hálfum klukkutíma síðar sem hún komst á sjúkrahús og undir læknishendur. Nokkru síðar flaug hún til heimalandsins, Indlands. Hún var mikið slösuð, með alvarleg brunasár í andliti og víðar um líkamann og beinbrot.

Chaphekar segir að í níu klukkustundir hafi ættingjar hennar og vinir ekki vitað með vissu hvort hún væri á lífi.

En þeir höfðu séð myndina frægu. Og það veitti þeim von um að hún hefði komist lífs af.

Filippus konungur Belgíu heilsar flugfreyjunni Nidhi Chaphekar, sem slasaðist lífshættulega …
Filippus konungur Belgíu heilsar flugfreyjunni Nidhi Chaphekar, sem slasaðist lífshættulega í árásunum fyrir ári síðan. AFP

Líðan Chaphekar versnaði mikið eftir að hún kom á sjúkrahús þar sem málmagnir vegna sprengjunnar voru fastar víða um líkama hennar. Reynt var að fjarlægja þær allar strax en einhverjar urðu eftir og ollu henni mikilli vanlíðan. Um tíma var henni haldið sofandi af þessum sökum. Tæpum mánuði eftir árásina vaknaði hún loks og smám saman fóru atburðirnir að rifjast upp.

Það var ekki fyrr en þá sem hún sá myndina af sér, blóðugri í brottfararsalnum. „Sem flugfreyjur erum við þjálfaðar í að veita öðrum fyrstu hjálp. Ég var bjargarlaus á þessu augnabliki, ég gat engum öðrum hjálpað. Þetta var mjög erfitt að sætta sig við. Þetta sýnir sársaukann. Allt.“

Ljósmyndina tók blaðamaður frá Georgíu, Ketavan Kardava, á símann sinn. Kardava og Chaphekar hafa verið í sambandi síðan.

Chaphekar er nú á góðum batavegi. Hún segist ákveðin í því að ná góðri heilsu á ný en að baráttan hafi verið löng og ströng. „Það voru hindranir, ég gat ekki gengið. Á hverjum degi voru nýjar áskoranir. En ég sagði sjálfri mér að ég yrði að takast á við þetta.“

Hún á enn eftir að gangast undir nokkrar skurðaðgerðir. Og hún ætlar sér að komast aftur til starfa í háloftunum.

„Það er ástríðan mín,“ segir hún við CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert