Segir að ESB gæti liðið undir lok

Frans páfi er hann hélt ræðu sína í Vatíkaninu.
Frans páfi er hann hélt ræðu sína í Vatíkaninu. AFP

Frans páfi varaði leiðtoga Evrópusambandsins við því í dag að stofnunin eigi það á hættu að líða undir lok ef ný framtíðarsýn verður ekki sett fram, byggð á upphaflegri hugsjón hennar um samstöðu.

Haldið er upp á sextíu ára afmæli ESB í Róm í dag.

„Þegar stofnun missir sjónar á stefnu sinni og getur ekki lengur horft fram á við, þá fer henni aftur og þegar til lengri tíma litið gæti hún liðið undir lok,“ sagði Frans í ræðu sem hann hélt fyrir leiðtoga ESB í Vatíkaninu.

Páfinn bætti við að leiðtogar þeirra sex þjóða sem stofnuðu ESB í mars árið 1957 hafði trúað á framtíðina eftir eyðilegginguna í síðari heimsstyrjöldinni.

„Þá skorti ekki hugrekki og þeir brugðust heldur ekki of seint við,“ sagði hann og bætti við að samstaða verði að vera fyrir hendi í Evrópu og lýsti því yfir að hún væri „áhrifaríkasta móteitrið gegn nútíma útgáfu lýðskrums.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert