Vilja ekki vera með í gegnum gervihnött

Rússneska ríkissjónvarpið er ekki sátt við að Yuliya Samoilova taka …
Rússneska ríkissjónvarpið er ekki sátt við að Yuliya Samoilova taka þátt í Eurovision með fjarflutningi. AFP

Rússneska ríkissjónvarpið hafnar því að framlag þeirra til Eurovision söngvakeppninnar verði flutt í gegnum gervihnött frá Rússlandi.

Skipu­leggj­end­ur keppn­inn­ar sem fram fer í Kænug­arði í maí greindu frá því í gær að rússneski keppandinn, söngkonan Yuliya Samoi­lova megi taka þátt í Eurovisi­on með því að syngja frá Rússlandi í beinni út­send­ingu þar sem stuðst er „við gervi­hnött“.

Úkraínsk yfirvöld vilja ekki leyfa Samoi­lovu að koma til landsins  vegna „ólög­legr­ar“ heim­sókn­ar henn­ar til Krímskaga árið 2015.

Stjórnvöld í Rússlandi höfðu óskað eftir að ákvörðun um að banna Samilovu að taka þátt yrði endurskoðuð.

Segja boðið vera skrýtið

Rússneska Channel One sjónvarpsstöðin sagði boðið um gervihnattaflutninginn hins vegar vera „skrýtið“. Við teljum boðið um þátttöku í gegnum fjarflutning vera skrýtið og höfnum því,“ segir rússneska ríkisfréttastofan Tass að hafi verið viðbrögð stöðvarinnar. „Þetta er í fullkominni andstöðu við anda viðburðarins.“

Þetta er í fyrsta skipti í 60 ára sögu söngvakeppninnar sem ríki er boðið að taka þátt með fjarflutningi og sagði í yfirlýsingu frá EBU, sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, að keppnin yrði að vera laus við pólitík.“

„Það er mikilvægt að Eurovision söngvakeppnin sé laus við pólitík og vegna kringumstæðnanna í kringum ferðabann Juliu, þá finnst okkur mikilvægt að leggja til lausn sem er hafin yfir slíkar deilur,“ hefur fréttavefur BBC eftir Jon Ola Sand, framkvæmdastjóra keppninnar.

Frank-Dieter Freiling, sem á sæti í stjórn söngvakeppninnar, sagðist vona að úkraínsk stjórnvöld myndu ekki framfylgja ferðabanninu og fyndu þess í stað lausn sem samræmdist slagorði keppninnar, sem er að fagna fjölbreytileikanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert