Stal frá látnu fólki og keypti sér vín

Box eyddi háum fjárhæðum í að koma sér upp vínsafni.
Box eyddi háum fjárhæðum í að koma sér upp vínsafni. AFP

Virtur breskur lögmaður stal um 550 milljónum króna úr sjóðum kúnna sinna til að fjármagna lúxus-sumarfrí, rándýrt vínsafn og fatakaup sín.  

Linda Box, 67 ára og einn af eigendum lögmannsstofunnar Dixon, Coles & Gill, var nálægt því að setja stofuna á hausinn vegna svikanna, að því er The Telegraph greindi frá.

Mál hennar var tekið fyrir í dómstóli í Leeds. Þar kom fram að á tólf ára tímabili hafi Box, „mikilsvirtur aðili samfélagsins“, verið afar eyðslusöm. Eyddi hún meðal annars háum fjárhæðum í dvöl á lúxushótelum þar sem nóttin kostar um 110 þúsund krónur og í vínsafn sem er um 110 milljóna króna virði.

Hún greiddi fasteignalán fyrir vini sína, borgaði skólagjöld í einkaskóla fyrir barnabarn sitt og splæsti í endurbætur á heimili sínu.

Einnig eyddi hún í dýrar utanlandsferðir, meðal annars 1,5 milljónum króna í fjölskyldufrí á Edinborgarhátíðina.

Box meira að segja stal tæpum 9 milljónum króna úr sjóði biskupsins af Wakefield.

Dæmd í sjö ára fangelsi

Hún var dæmd í sjö ára fangelsi fyrir helgi eftir að hafa játað sök í níu ákærum fyrir fjársvik, tveimur ákærum vegna fölsunar og einni fyrir þjófnað.    

Dómarinn sagði að hún hafi brugðist trausti fólks með „stjórnlausri græðgi sinni“.

Saksóknarinn Nadeem Bashir sagði að glæpir hennar hafi komist upp í desember 2015 þegar annar eigandi að lögmannsstofunni, Julian Gill, hafði áhyggjur af því að teknar hefðu verið út tæplega 700 þúsund krónur úr sjóði kúnna.

Í ljós kom að fleiri upphæðir höfðu verið teknar út og millifærðar, m.a. á greiðslukortareikning Box.

Húsnæði Dixon, Coles & Gill hefur núna verið selt og mörgu starfsfólki sagt upp vegna svika Box.

Falsaði undirskriftir 

Box falsaði undirskriftir samstarfsmanns síns á skjöl þar sem staðfest er gildi erfðaskráa, auk þess sem hún falsaði undirskriftir annarra samstarfsmanna til að fá aðgang að sjóðum.

Dregið hafði verið fé úr sjóðum 75 manns, þar á meðal margra látinna einstaklinga, auk tíu sjóða sem tengjast kirkjunni.

Að sögn Box notaði hún peningana til eigin eyðslu og tók hún fram að eiginmaður hennar hafi ekkert vitað af brotum hennar.

„Hún sagðist hafa eytt óhóflega. Hún sagði að það hafi þróast út í þráhyggju,“ sagði Bashir.

Dómarinn sagði umfang svikanna „sláandi“.

Móðir eins látins kúnna sagði: „Er til andstyggilegri glæpur en að þykjast vera vinur manns á sama tíma og ég var í öngum mínum vegna sorgar?“

Verjandi Box, Joe Hingston, sagði að hún hafi verið afskrifuð sem lögmaður eftir rúmlega 40 ára starf. „Mannorð hennar er í molum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert