9 ára í mál við stjórnvöld vegna aðgerðarleysis

Indverskar konur ganga í gegnum mengunarský á leið sinni til …
Indverskar konur ganga í gegnum mengunarský á leið sinni til Jama Masjid moskunnar í Dehli. AFP

Hin níu ára gamal Ridhima Pandey, hefur höfðað mál gegn stjórnvöldum á Indlandi fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Í málshöfðuninn, sem lögð var fyrir umhverfisverndardómstól Indlands, varar hún við því að unga kynslóðin muni gjalda fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda, sem hafi látið hjá líða að virka umhverfsverndarlög.

„Sem ung manneskja þá er Ridhima, hluti þessa hóps Indverja sem eru hvað viðkvæmastir fyrir loftslagsbreytingum en sem fá ekki að taka þátt í ákvarðanaferlinu,“ segir í 52 blaðsíðna langri málshöfðuninni. Þar eru stjórnvöld hvatt til aðgerða „byggðum á vísindagrunni“ til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka þannig áhrif loftslagsbreytinga.

„Ríkisstjórnin hefur ekki gripið til aðgerða til að virkja reglugerðir og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem eru að valda þessum öfgakenndu loftslagsaðstæðum. Þetta mun hafa áhrif á mig og komandi kynslóðir,“ sagði Ridhima í samtali við breska dagblaðið Independent.

4 af 10 menguðustu borgunum eru á Indlandi

„Indland hefur mikla möguleika á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, en vegna aðgerðaleysis stjórnvalda þá snéri ég mér til umhverfisverndardómstólsins,“ sagði hún.

Indverska umhverfisráðuneytinu hefur verið gefinn tveggja vikna frestur til að svara.

Fjórar af 10 menguðustu borgum heims er að finna á Indlandi og rúmur helmingur allra dauðsfalla af völdum loftmengunar sem urðu árið 2015 urðu á Indlandi og Kína samkvæmt nýlegri rannsókn. En samkvæmt skýrslu sem Greenpeace gaf út í janúar, þá má rekja dauða tæplega 1,2 milljón Indverja á ári til loftmengunar.

Umhverfisráðherra Indlands sagði skýrsluna hins vegar vera ófullkomna og að ekki væri þar að finna neinar haldbærar upplýsingar sem bentu á bein tengsl milli dauðsfallanna og loftslagsmengunar.

Ridhima er dóttir umhverfisverndarsinna. „Hún er mjög meðvituð um loftslagsbreytingarnar fyrir svo unga manneskju og hún hefur miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þær munu hafa á framtíð hennar,“ sagði Rahul Choudhary, lögfræðingurinn sem talar máli hennar fyrir dómstólnum.

„Hún vildi gera eitthvað sem hefði áhrif og við lögðum til að hún færi í mál við stjórnvöld.“

Indland er eitt þeirra ríkja sem undirrituðu Parísarsamkomulagið og hefur heitið því að árið 2030 muni að minnsta kosti 40% af rafmagninu sem landsbúar nota verða framleitt án notkunar jarðefnaeldsneytis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert