Þjást til að öðlast fyrirgefningu

Maður gengur á brott eftir að hafa hýtt sig til …
Maður gengur á brott eftir að hafa hýtt sig til blóðs. Á krossana verða negldir hinir heittrúðu. AFP

Þeir hýða bök sín þar til blóðið rennur og láta negla sig á kross. Þeir eru heittrúaðir kaþólskir Filippseyingar og marka föstudaginn langa með ofsalegum trúarlegum gjörningum, sem eru orðnir vinsælir meðal og vel sóttir af ferðamönnum.

Í bæjum norður af Manila voru að minnsta kosti fimm negldir á kross, á sama tíma og hundruð íbúa eyjar suður af borginni klæddu sig upp sem rómverskir hundraðshöfðingjar. Um er að ræða áratuga gamlar hefðir sem blómstra enn, þrátt fyrir að njóta ekki formlega blessunar kirkjuleiðtoga.

Á eyjunni Marinduque, um 150 km suður af höfuðborginni, leika grímuklæddir íbúar sér að því að elta „uppreisnarhermanninn“ St. Longinus. Þjóðsagan segir að Longinus hafi stungið spjóti sínu í síðu hins krossfesta Krists. Við það hafi blóð Krists lent á andliti hundraðshöfðingjans, gefið honum sjónina á ný og sannfært hann um að snúa af villu síns vegar.

Leikar ná hámarki á laugardegi, þegar fólkið fangar Longinus og „afhöfðar“ hann á dramatískan hátt.

Í leðurreiminni hanga bambusbútar, sem sprengja holdið smám saman.
Í leðurreiminni hanga bambusbútar, sem sprengja holdið smám saman. AFP

Skipuleggjandinn Raymond Nepomuceno segist hvetja börn til að taka þátt. „Ég upplifi þetta sem deyjandi kúltúr og til að varðveita hann fyrir næstu kynslóðir leyfum við börnunum að taka þátt, hvort sem það er til marks um heit [til Guðs] eða bara til að hafa gaman,“ segir hann.

Hálfnaktir menn sönnuðu trú sína með því að hýða sig í kirkjugarði en áður höfðu sár verið rist í bök þeirra með rakvélablöðum. „Ég hef gert þetta í 15 ár. Ég geri þetta til að syndir mínar verði fyrirgefnar,“ segir Sammy Matre.

Byrjandinn John Allen féll í yfirlið eftir að honum fór að blæða. „Ég veit ekki af hverju mig svimaði. Ég held það sé vegna þess að ég svaf ekki nóg í nótt.“

Í þorpinu San Pedro norður af Manila lét hinn 56 ára Ruben Enaje krossfesta sig í 31. sinn. Tugir annarra hýddu bök sín undir brennandi sólinni, fyrir framan furðulostna ferðamenn.

Þeir hörðustu láta negla sig á kross og hanga þar.
Þeir hörðustu láta negla sig á kross og hanga þar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert