Grunuð um að smygla fólki

Lögreglan hefur afskipti af tveimur konum sem komu fótgangandi yfir …
Lögreglan hefur afskipti af tveimur konum sem komu fótgangandi yfir landamæri til Kanada. AFP

Kanadísk kona var handtekin vegna gruns um að smygla flóttafólki til landsins. Aldrei hafa jafnmargir komið yfir landamærin frá Bandaríkjunum til Kanada í þeirri von að fá hæli. Fjölgunin varð umtalsverð eftir Donald Trump tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hefur lögreglan haft afskipti af 1.860 manns sem hafa reynt að komast til Kanada. 

Konan sem var handtekin heitir Michelle Omoruyi og er 43 ára. Hún var stöðvuð við landamæri Kanada og Bandaríkjanna og var kærð vegna meintra brota á innflytjenda- og flóttamannalögum landsins.

Auk hennar voru níu aðrir handteknir en lögreglan vildi hvorki gefa upp hvaðan fólkið kemur né á hvaða aldri það var. Á sama tíma voru nokkrir aðrir handteknir við landamærin í Norður Dakota en fjöldinn hefur ekki verið staðfestur.    

Lögregluyfirvöld í Kanada og Bandaríkjunum hafa rannsakað meint smygl í um fjóra mánuði. Við húsleit sem tengist Omoruyi var hald lagt á fjármuni og önnur sönnunargögn.  

Í dagblaðinu Regina Leader Post er fullyrt að níumenningarnir séu frá vesturhluta Afríku og að þeir hafi þegar sótt um hæli í Kanada. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert