Neitar að hafa misþyrmt samkynhneigðum

Samkynhneigðir Tsjetsjenar hafa flúið ofsóknir í heimalandi sínu til Rússlands.
Samkynhneigðir Tsjetsjenar hafa flúið ofsóknir í heimalandi sínu til Rússlands. AFP

Ramzan Kadyrov, forseti Tsjetsjeníu, þverneitar að stjórnvöld hafi handtekið samkynhneigt fólk og misþyrmt því líkt og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Þetta sagði hann við Vladimir Putin, forseta Rússlands. Samkynhneigðir Tsjetsjenar hafa flúið ofsóknir í heimalandi sínu til Rússlands.   

„Það er vandræðalegt að tala um þetta,“ sagði Kadyrov. Hann heldur því fram að blöðin séu full af þvættingi um þetta málefni. Máli sínu til stuðnings nefndi hann að eitt meint fórnarlamb sem fjölmiðlar greindu frá að væri látið væri við hestaheilsu og héldi til heima hjá sér.  

Í síðasta mánuði fullyrti dagblaðið Novaya Gazeta að samkynhneigðir karlmenn hefðu verið handteknir og pyntaðir. Í Tsjetsjeníu er samkynhneigð tabú og þeir sem eru samkynhneigðir eiga þá hættu að vera misþyrmt af fjölskyldu sinni. Að sögn blaðsins hvetja stjórnvöld fjölskyldur til að myrða samkynhneigðan fjölskyldumeðlim til að „hreinsa nafnið sitt“. 

Að minnsta kosti hafa tveir samkynhneigðir verið myrtir af ættingja sínum og sá þriðji lést nýverið, að sögn dagblaðsins Novaya Gazeta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert