Völdu Belgann Stan sem næsta einsetumann

Einsetubýlið í Saalfelden. Útsýnið er óneitanlega stórkostlegt.
Einsetubýlið í Saalfelden. Útsýnið er óneitanlega stórkostlegt. AFP

Engin laun og búseta án rafmagns eða rennandi vatns kom ekki í veg fyrir að 50 manns víðsvegar að úr heiminum sæktu um stöðu eins síðasta einsetumanns í Evrópu.

 „Við völdum Stan Vanuytrecht af því að persónuleiki hans heillaði okkur. Hann virkar rólegur og er með fæturna á jörðinni,“ sagði Erich Rohrmoser, bæjarstjóri Saalfelden, um þennan hvítskeggjaða Belga á sextugsaldri sem ekur um á Trabant.

Vanuytrecht sagðist hafa verið hissa á að hann hefði verið valinn. Hann er fráskilinn, fyrrverandi hermaður, landmælingamaður og kaþólskur djákni .

„Ég hélt að ég ætti ekki séns,“ hefur AP-fréttstofan eftir Vanuytrecht, sem er á sextugsaldri. „En þegar ég frétti af Saalfelden einsetubýlinu þá hugsaði ég að þetta væri staðurinn fyrir mig.“

Einsetubýlið er 350 ára og byggt inn í klett ofan við bæinn. Starf einsetumannsins býður þó ekki upp á algjöra einveru, því fólk fer oft í göngur upp á klettinn til að njóta útsýnisins og sumir trúa einsetumanninum fyrir raunum sínum.

Vanuytrecht telur að fyrri reynsla sín af því að starfa með heimilislausum, áfengissjúklingum, fíkniefnaneytendum, föngum og einstaklingum með geðræn vandamál eigi eftir að koma sér vel.

„Það er mikilvægt að hlusta bara, án þess að tala sjálfur og án þess að dæma,“ sagði hann. Fyrrverandi eiginkona hans átti við geðræn vandmál að stríða og sjálfur kynntist hann fátækt í kjölfar skilnaðarins sem hann segir hafa kennt sér mikið.

Fyrrverandi presturinn og sálfræðingurinn Thomas Fieglmueller, sem er forveri Vanuytrecht í einsetustarfinu, snýr nú aftur til Vínar eftir að hafa dvalið eina önn á einsetubýlinu – sem er opið frá apríl til nóvember.

„Lífið á einsetubýlinu er fábrotið, en náttúran er falleg. Ég kynntist fullt af góðu fólki og átti skemmtilegar samræður,“ sagði Fieglmueller  við dagblaðið Salzburger Nachrichten.

„En ég mætti líka gagnrýni frá mjög íhaldssömum kaþólikkum af því að ég var hvorki í kufli né með skegg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert