Norskri stúlku rænt á Kýpur

HEIKO JUNGE

Fjögurra ára gamalli norskri stúlku var rænt á Kýpur í morgun. Þrjár manneskjur voru dæmdar í fyrra fyrir að reyna að ræna sömu stúlku. Bæði Aftenposten og norska ríkisútvarpið greina frá þessu en bæði lögregla á Kýpur og norska lögreglan, Kripos, hafa staðfest þetta.

Stúlkunni var rænt eftir að móðir hennar kom með hana á leikskólann í Nicosia klukkan 8:45 að staðartíma, klukkan 5:45 að íslenskum tíma. Að sögn lögreglu var stúlkunni rænt af tveimur grímuklæddum mönnum fyrir utan leikskólann og óku þeir á brott  með hana í Range Rover, segir lögreglan. 

Ekki liggur fyrir hvort ræningjarnir séu þeir sömu og reyndu að ræna henni í fyrra. Espen Lee, sem er fyrrverandi hermaður, neitar því í samtali við Aftenposten að hafa tekið þátt í ráninu í morgun. Hann ásamt tveimur öðrum Norðmönnum og innlendri húshjálp, var í fyrra handtekinn af norsku lögreglunni grunaður um að hafa ætlað sér að ræna stúlkunni. Sonur Lee segir í samtali við VG að faðir hans sé í Ósló og hafi hvergi komið nærri ráninu á stúlkunni í morgun.

NRK greinir frá því að starfsfólk leikskólans hafi reynt að stöðva ræningjana án árangurs en þeir óku á ofsahraða á brott. Faðir stúlkunnar er norskur ríkisborgari en móðirin býr í Nicosia. Samkvæmt frétt VG hafa foreldrarnir deilt um forræði yfir stúlkunni. Móðirin var sökuð um að hafa farið án heimildar með stúlkuna úr landi í Noregi árið 2015 en hún sagði sjálf að hún og barnsfaðir hennar hefðu náð samkomulagi þar um. Amma barnsins, sem býr á Kýpur, sendi til lögreglu á sínum tíma afrit af flugmiðum þeirra aftur til Noregs.

Aftenposten

NRK

VG

Bætt við klukkan 10:07

Lögfræðingur afa stúlkunnar, Morten Engesbak, hefur svarað spurningu VG skriflega um að stúlkan sé hjá pabba sínum og hafi það gott. Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um málið skrifar Engesbak til VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert