11 látist af völdum óþekkts sjúkdóms

Að störfum í Líberíu.
Að störfum í Líberíu. AFP

Yfirvöld í Líberíu hafa greint frá því að sýni úr einstaklingum sem virðast þjást af óþekktum sjúkdómi hafi verið send úr landi til greiningar. Nítján hafa verið greindir með sjúkdóminn og ellefu látist en búið er að útiloka að um sé að ræða ebólu.

Fólkið er allt frá Greenville í suðausturhluta landsins og hóf að sýna einkenni 24. apríl sl., samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Sem fyrr segir eru ellefu látnir og sjö liggja á sjúkrahúsi en einn hefur verið útskrifaður.

Sorbor George, talsmaður heilbrigðisráðuneytis Líberíu, sagði í samtali við AFP að blóðsýni úr fólkinu hefðu verið send úr landi til rannsókna. Hann gat aðeins staðfest níu dauðsföll af völdum sjúkdómsins.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni líkjast einkenni veikinnar einkennum ebólu en þau eru m.a. hiti, uppköst, höfðuverkur og niðurgangur. Verið er að rannsaka tengsl fórnarlambanna og útfarar trúarleiðtoga.

Lögregla kemur að rannsókninni, að sögn George.

Líbería var það land sem fór verst út úr ebólufaraldrinum sem braust út árið 2013. Fleiri en 29.000 smituðust og um þriðjungur þeirra lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert