Hafna hugmyndum um stjórnlagaþing

Mótmælendur á götu í Caracas, höfuðborg Venesúela í dag.
Mótmælendur á götu í Caracas, höfuðborg Venesúela í dag. AFP

Mótmælendur í Venesúela settu upp vegatálma í dag í enn einni mótmælahrinunni gegn forsetanum Nicolas Maduro. Mótmælin nú brutust út í kjölfar þess að forsetinn tilkynnti að hann ætlaði að gera breytingar á stjórnarskrá landsins til að binda enda á eldfimt pólitískt ástand sem hefur kostað á þriðja tug manna lífið síðustu daga. 

En tilkynning forsetans féll ekki í góðan jarðveg og í stað þess að róa stjórnarastæðinga var hún eins og olía á eldinn. 28 hafa fallið í átökum í landinu síðustu daga. Stjórnarandstæðingar krefjast þess að forsetinn fari frá völdum og að boðað verði til kosninga. 

Vill ekki afskipti þingsins

Maduro sagðist í gær ætla að nýta vald sitt til að setja á fót 500 manna stjórnlagaþing. Í því myndu margir úr verkamannastétt og sveitarstjórnum eiga sæti. Hann sagði tilganginn þann að endurskrifa stjórnarskránna, án afskipta þingsins þar sem stjórnarandstaðan fer með meirihluta. 

Sagði Maduro nauðsynlegt að koma í veg fyrir „valdarán fasista“ sem hann sagði að ógnaði öryggi landsmanna. Maduro hefur lengi sagt að Venesúela sé fórnarlamb samsæris sem Bandaríkjamenn leiði gegn landinu.

Stjórnarandstaðan hefur hafnað hugmyndum um stjórnlagaþing þar sem þeir sem þar myndu sitja væru ekki valdir í kosningum heldur valdir úr röðum bænda og verkafólks úr hópi stuðningsmanna Maduros.

Venesúela glímir við efnahagslegar hremmingar og stjórnarandstaðan kennir forsetanum um hvernig komið er. Mótmælendur þyrptust enn á ný út á götur í dag og settu upp vegatálma úr rusli og trjám. Þá börðu þeir á potta og blésu í lúðra. 

„Þetta stjórnlagaþing sem Maduro hefur tilkynnt um er blekking til að sleppa við kosningar,“ segir 22 ára háskólanemi úr hópi mótmælenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert