Vill ekki rannsókn á ásökunum um ofsóknir

Aung San Suu Kyi, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels og leiðtogi rík­is­stjórn­ar Búrma, hafnar ákvörðun mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um að gerð verði rannsókn á ásökunum um að her landsins hafi brotið gegn fólki af Rohingja-þjóðinni sem er minnihlutahópur múslima í landinu.

Sameinuðu þjóðirnar samþykktu í mars að gera út sendinefnt il landsins vegna ásakana um að fólk af Rohingja-þjóðinni sætti ofsóknum, væri myrt, því nauðgað og það pyntað í Rakhine-ríki.

„Við erum ekki samþykk þessu,“ sagði Suu Kyi á blaðamannafundi í Brussel í dag en hún er þangað komin til að ræða við forystumenn Evrópusambandsins. Hún segir stjórnvöld ekki taka undir samþykkt Sameinuðu þjóðanna því hún sé ekki í takti við það sem raunverulega sé að gerast. 

Hún segir að stjórnvöld taki hins vegar fagnandi tillögum sem séu í samræmi við „raunverulegar þarfir svæðisins.“

En hún segir að tillögur, sem muni enn frekar kljúfa samfélagið í Rakhine, verði ekki samþykktar, „því þær munu ekki hjálpa við að leysa þau vandamál sem eru sífellt að koma upp.“ 

Minnkandi vinsældir

Vinsældir Suu Kyi, sem er friðarverðlaunahafi Nóbels, hafa minnkað í kjölfar ásakana um ofbeldi gegn Rohingjunum. Hún hefur lítið tjáð sig um málefni þessara íbúa landsins. 

Rohingjar eru í raun ríkisfangslausir. Þeir hafa í tugþúsundavís flúið til nágrannlandsins Bangladess síðustu mánuði en þar bíður þeirra ekki góð vist. Til stendur að flytja þá á eyju sem flæðir yfir reglulega. 

 Suu Kyi hefur hafnað ásökunum um að hún og ríkisstjórn landsins séu að láta þjóðarmorð viðgangast. „Ég átta mig ekki á hvað þú meinar þegar þú segir að við höfum ekki haft neinar áhyggjur af ásökunum um að þjóðarmorð væri að eiga sér stað í Rakhine,“ segir hún. „Við höfum verið að rannsaka þessar ásakanir og höfum brugðist við.“

Segja þjóðernishreinsanir í gangi

Federica Mogherini, erindreki Evrópusambandsins, hefur hvatt stjórnvöld í Búrma til að styðja rannsókn Sameinuðu þjóðanna. 

„Stofnun rannsóknarhópsins er eitt af mjög fáum ágreiningsmálum okkar á milli,“ sagði Mogherini á blaðamannafundinum. Hún sagði nauðsynlegt að vinna sameiginlega að því að finna lausn á málinu.

Sameinuðu þjóðirnar telja að herferð stjórnarhersins í Búrma gegn Rohingjum jafnist á við glæpi gegn mannkyni og að um þjóðernishreinsanir sé að ræða. 

En Suu Kyi sagði við BBC fyrr í þessum mánuði: „Ég tel að þjóðernishreinsanir séu ekki að eiga sér stað.“

Aung San Suu Kyi, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels og leiðtogi rík­is­stjórn­ar Búrma, …
Aung San Suu Kyi, friðar­verðlauna­hafi Nó­bels og leiðtogi rík­is­stjórn­ar Búrma, vill ekki að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki ásakanir um þjóðarmorð á Rohingjum í landinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert