Neitaði að sjá um útför samkynhneigðs karlmanns

Hjónin höfðu kynnst árið 1965 en gátu ekki gift sig …
Hjónin höfðu kynnst árið 1965 en gátu ekki gift sig fyrr en árið 2015 þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði hjónabönd samkynhneigða. AFP

Samkynhneigður karlmaður hefur höfðað mál gegn útfararstofu í Mississippi sem hann segir að hafi neitað að brenna lík eiginmannsins þar sem stofan „skipti ekki fólk af þeirra tagi.“

Í frétt CNN um málið segir að John Zawadski sé 82 ára. Hann hafi höfðað mál við Picayune útfararstofuna vegna brota á samningi og tilfinningalegs áfalls sem hann varð fyrir.

Í málsókninni segir að útfararstofan hafi ekki staðið við munnlegt samkomulag um útfararþjónustu fyrir eiginmann Zawadskis, Robert Huskey, sem fram átti að fara í maí á síðasta ári. Stofan hafi rofið samkomulagið er hún komst að því að Huskey hefði verið samkynhneigður. Þetta hafi aukið á sorg fjölskyldunnar sem hafi svo þurft að leita annarra úrlausna á síðustu stundu. Þau hafi af þessum sökum orðið að aflýsa minningarathöfn sem halda átti um Huskey.

Útfararstofan hafnar þessum ásökunum en svaraði ekki símtölum og skilaboðum frá fréttamönnum CNN.

Zawadski segir að sér hafi liðið eins og hann hefði verið kýldur í magann. „Bob var mér allt og okkur leið alltaf vel í þessu samfélagi. Og svo á viðkvæmu augnabliki var einhver einhver sem gerði mér þetta, gerði Bob þetta. Ég vildi bara ekki trúa því. Enginn á að þurfa að ganga í gegnum það sem við gengum í gegnum.“

Settust að í friðsælum bæ

Zawadski og Huskey kynntust í Kaliforníu árið 1965. Þeir bjuggu víða um Bandaríkin og kenndu fötluðum börnum. Þegar að efri árum kom settust þeir að í Picayune í Mississippi. Það var árið 1997. Þar nutu þeir vinsemdar og virðingar meðal nágranna sinna. 

Þeir giftu sig árið 2015, aðeins nokkrum dögum eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði hjónabönd samkynhneigðra. Fáum vikum síðar fór heilsu Huskeys að hraka og hann flutti á hjúkrunarheimili. Er Huskey lá á banabeðinu gerði frændi hans samkomulag við útfararstofuna í bænum um að flytja lík frænda síns af hjúkrunarheimilinu, þegar þar að kæmi, og á útfararstofuna til bálfarar. Hann valdi útfararstofuna sérstaklega þar sem hún var í bænum og þar var bálstofa. 

Þegar Huskey lést hafði hjúkrunarheimilið samband við útfararstofuna. Þá neituðu starfsmenn hennar að sækja líkið og sjá um útförina. Frændinn segir að það hafi þeir gert eftir að þeir höfðu fengið skjöl um Huskey og komist að því að maki hans væri karlmaður. Þetta hafi starfsmenn hjúkrunarheimilis staðfest. Svörin sem fengust voru þau að útfararstofan vildi ekki eiga viðskipti við fólk af „þessu tagi“.

Líkið var því ekki sótt eins og samið hafði verið um. Upphófst örvæntingarfull leit að annarri útfararstofu því ekkert líkhús var á hjúkrunarheimilinu. Það tókst að lokum en sú stofa var langt frá bænum og því var engin minningarathöfn haldin.

Frétt CNN í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert