Aðgerðir gegn Ríki íslams ræddar í Danmörku

AFP

Fulltrúar frá fimmtán ríkjum koma saman í Kaupmannahöfn í dag þar sem ræddar verða aðgerðir gegn vígasamtökunum Ríki íslams. Um er að ræða ríki sem taka þátt í sameiginlegum aðgerðum gegn samtökunum í Írak og Sýrlandi undir forystu Bandaríkjahers.

Telja þeir að þrátt fyrir að ekki sjái fyrir endann á hernaðaraðgerðum gegn vígasamtökunum hafi verulega áunnist í að brjóta á bak aftur starfsemi þeirra í ríkjunum tveimur.

Ríki íslams hefur misst völdin í Mósúl, helsta vígi þeirra í Írak, og eins hafa liðsmenn Ríkis íslams að mestu einangrast í helsta vígi sínu í Sýrlandi, Raqqa.

Ráðuneytisstjóri bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Jim Mattis, og danski starfsbróður hans, Claus Hjort Frederiksen, eru meðal þátttakenda á fundinum í dag. Mattis segir að rætt verði um framtíðina og hvort grípa þurfi til frekari aðgerða.

Þúsundir útlendra vígamanna eru í Írak og Sýrlandi og óttast þátttökuþjóðir í verkefninu gegn Ríki íslams, einkum evrópskar, hvað gerist þegar þeir snúa aftur til heimalandsins. 

Interpol hefur borið kennsl á 14 þúsund útlenda vígamenn sem vitað er að fóru til Sýrlands og eru enn á lífi. Flestir þeirra koma frá Túnis og Sádi-Arabíu. Þúsundir hafa farið frá Evrópu, þar á meðal um 100 frá Danmörku. 

Baráttan gegn Ríki íslams hófst haustið 2014 og hafa þátttökuríkin meðal annars komið að þjálfun íraskra hermanna og eins hafa verið gerðar loftárásir á búðir vígamanna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert