DNA-sýni fannst á byssu Cheurfi

Einn lést í árás Cheurfi 20. apríl.
Einn lést í árás Cheurfi 20. apríl. AFP

Franska lögreglan hefur ákært 23 ára gamlan mann fyrir brot á hryðjuverkalögum. DNA-sýni mannsins fannst á byssu Karim Cheurfi, sem skaut einn lög­reglu­mann í höfuðið og særði tvo til viðbótar auk þýsks ferðamanns áður en lögreglan felldi hann. Árásin átti sér stað í lok apríl á breiðgöt­unni Champs Elysees í Par­ís viku fyrir forsetakosningar í Frakklandi. BBC greinir frá. 

Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur í fjölmiðlum og er ekki á skrá lögreglu yfir þekkta brotamenn. Hann var handtekinn í París. Hann hefur neitað að hafa þekkt til Cheurfi.

Talið er að Cheurfi hafi verið fylg­ismaður Rík­is íslams því í fórum hans fannst bréf þar sem hann lýsir yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin. Ríki íslams lýstu árásinni á hendur sér og segja einn af „baráttumönnum“ sínum hafa gert hana.

Hins vegar fullyrða þau að „Abu Yousif al-Belgik“ hafi gert hana en Belgik þýðir Belginn. Cheurfi var sjálfur úr austurhluta Parísar og hafði áður gefið til kynna að hann vildi myrða lögregluþjón.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert