Tóku 19 manns af lífi

Sýrlenskur drengur í flóttamannabúðum skammt frá Raqa. Mynd úr safni.
Sýrlenskur drengur í flóttamannabúðum skammt frá Raqa. Mynd úr safni. AFP

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams tóku af lífi 19 almenna borgara, þar á meðal tvö börn og tvær konur, í þorpi í austurhluta Sýrlands í gærkvöldi. Þorpið Jazrat al Boushams var í haldi andstæðinga samtakanna en liðsmenn Ríkis íslams réðust inn í þorpið í gær.

Fólkið var skotið í höfuðið og svo voru líkin brennd að sögn Rami Abdel Rahman hjá samtökunum Syrian Observatory for Human Rights.

„Sumir voru skotnir úti á götu en aðrir á heimilum sínum,“ sagði Rahman en hryðjuverkamennirnir rændu þremur liðsmönnum SDF, sem er hersveit Kúrda sem berst gegn Ríki íslams, áður en þeir yfirgáfu þorpið. Þorpið hefur verið yfirráðasvæði SDF í nokkra mánuði.

Liðsmenn Ríkis íslams drápu meira en 50 manns í tveimur þorpum í Hama-héraðinu í Sýrlandi á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert