„Þú munt deyja!“

Maðurinn hafði birt niðrandi ummæli um íbúa á samfélagsmiðlum og …
Maðurinn hafði birt niðrandi ummæli um íbúa á samfélagsmiðlum og höfðu íbúar ítrekað kvartað undan hegðun hans. Á endanum tóku íbúarnir til sinna ráða og endaði það með ósköpum. AFP

Lögreglan í Mexíkó gætir nú rússnesks ríkisborgara á sjúkrahúsi eftir að æstur múgur hafði ráðist á manninn í borginni Cancun. Lögreglan kom manninum, Aleksei Makeev, til bjargar á föstudagskvöld eftir að hópur fólks hafði brotið sér leið inn í íbúð hans.

Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er sakaður um að hafa birt á samfélagsmiðlum niðrandi og móðgandi ummæli um íbúa á svæðinu. Þá segja yfirvöld að hann sé sakaður um að hafa stungið og sært mann lífshættulega í átökunum sem brutust út. 

Íbúar í nágrenninu vildu ná tali af Makeev vegna ummælanna og þeim tókst að komast inn í íbúðina eftir að átök höfðu brotist út, að því er segir í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.

Haft er eftir mexíkóskum embættismanni að ungur maður sem særðist í átökunum hafi verið fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum.

Lögreglunni tókst að koma Makeev til aðstoðar og var hann einnig fluttur á sjúkrahús þar sem hann hlaut áverka í átökunum. Hann er hins vegar ekki sagður vera alvarlega særður. 

Myndskeið voru birt í fjölmiðlum í Mexíkó í gær þar sem fólk heyrist hrópa: „Þú munt deyja!“ og „Ég mun höggva af þér höfuðið!“

Lögreglan segir að margar kvartanir hafi borist vegna hegðunar Makeev og menn hafi beðið um að honum yrði vísað úr landi. Embættismenn segja enn fremur, að í hluta myndskeiðanna sem hann birti á samfélagsmiðlum hafi sést nasistatákn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert