Trudeau skokkaði óvænt inn á mynd

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Væntanlega hefur Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, ekki átt von á því að verða myndaður með útskriftarnemendum í sínu fínasta pússi þegar hann var úti að skokka á föstudaginn. Hann hljóp um Stanley Park Seawall sem er eftirsótt útivistarsvæði í borginni Vancouver þegar hann hljóp fram hjá fyrrnefndum hópi nemenda og náðist á mynd. BBC greinir frá.

Nemendurnir voru ekki lengi að átta sig á að forsætisráðherrann sjálfur kom hlaupandi á móti þeim í stuttbuxum og stuttermabol. Þeir kölluðu á eftir honum og báðu hann um að sitja fyrir með þeim á mynd.

„Við vorum bara að hanga og taka myndir af okkur þegar Trudeau kemur hlaupandi,“ segir Constantine Maragos, einn af nemendunum. Viðbrögð þeirra létu ekki á sér standa og vildu þeir ólmir fá fleiri myndir af sér með honum. Trudeau tók vel í uppátækið og var með hópnum á „hópsjálfu“

„Við vorum steinhissa,“ segir Margos jafnframt.

Sögunni fylgir ekki hversu langt  Trudeau hugðist skokka þennan daginn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert