Þýsk kona myrt og finnskrar konu saknað

Talibanar hafa sótt í sig veðrið á undanförnum mánuðum og …
Talibanar hafa sótt í sig veðrið á undanförnum mánuðum og bera ábyrgð á fjölmörgum árásum í landinu. Hér sést afganskur öryggissveitarmaður standa vaktina í höfuðborginni Kabúl. AFP

Vopnaðir menn réðust á gistiheimili í Kabúl, höfuðborg Afganistans, þar sem þeir myrtu þýska konu og hjuggu höfuðið af afgönskum verði. Árásin á gistiheimilið, sem óháðu sænsku samtökin Operation Mercy reka, átti sér stað um klukkan 23:30 að staðartíma í gærkvöldi (kl. 19 að íslenskum tíma). 

Finnskrar konu er saknað og er talið að henni hafi verið rænt að sögn afganska innanríkisráðuneytisins. 

Fram kemur á vef BBC, að talibanar beri svo ábyrgð á annarri árás sem var gerð í suðurhluta landsins. Þeir réðust á eftirlitsstöðvar með þeim afleiðingum að 20 lögreglumenn féllu í valinn. Þá særðust að minnsta kosti 10 í fyrirsátunum í Zabul-héraði í gær. 

Talsmaður afganska innanríkisráðuneytisins segir að allir sem dvöldu á gistiheimilinu hafi verið starfsmenn sænsku samtakanna. Talsmenn Operation Mercy hafa ekki tjáð sig um atburðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert