Handteknir í „samkynhneigðu kynlífsteiti“

Lögreglumenn í Jakarta leiða mennina sem handteknir voru út. Andúð …
Lögreglumenn í Jakarta leiða mennina sem handteknir voru út. Andúð gegn samkynhneigðum og hinsegin fólki fer vaxandi í landinu. AFP

Lögregla í Indónesíu handtók 141 karlmann, en þeir höfðu mætt í það sem lögreglan kallar „samkynhneigt kynlífsteiti“ í gufubaði í Jakarta, höfuðborg landsins í gærkvöldi.

Lögregla segir mennina hafa greitt 185.000 rúpíur, eða um 1.400 kr. aðgangseyri, að boðinu.

Andúð í garð samkynhneigðra og hinsegin fólks fer vaxandi í Indónesíu. Samkynhneigð er þó ekki ólögleg í landinu, utan hins íhaldssama Aceh-héraðs þar sem meirihluti íbúa er múslimar.

Raden Argo Yuwono, talsmaður lögreglu í Jakarta, sagði suma þeirra sem handteknir voru hins vegar kunna að sæta ákæru á grundvelli strangrar klámlöggjafar landsins.

„Þetta var samkynhneigt fólk sem var gripið við að halda nektarsýningu og við að fróa sér,“ sagði Yuwono í samtali við BBC. Nektarsýningar geta fallið undir óljóst orðaða klámlöggjöfina.

Í síðustu viku voru tveir menn dæmdir til að vera hýddir opinberlega í Aceh eftir að hafa verið dæmdir fyrir að stunda kynlíf saman. Þá handtók indónesíska lögreglan 14 manns í borginni Surabaya fyrr í þessum mánuði fyrir að halda samkynhneigt teiti.

Mennirnir sem voru handteknir voru látnir standa í röð á …
Mennirnir sem voru handteknir voru látnir standa í röð á fundi með indónesískum fjölmiðlum eftir handtökuna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert