Abedi talinn hafa farið til Sýrlands

Maður stendur framan við gosbrunn í Zagreb sem var upplýstur …
Maður stendur framan við gosbrunn í Zagreb sem var upplýstur með breska fánanum í minningaathöfn í gær. Breska leyniþjónustan er sögð hafa upplýsingar um að Salman Abedi hafi ferðast til Sýrlands. AFP

Salman Abedi, sem varð 22 að bana og særði 59, í sjálfsvígsárás í Manchester Arena tónleikahöllinni á mánudag, hafði „að öllum líkindum“ ferðast til Sýrlands. Þetta sagði Gerard Collomb, innanríkisráðherra Frakklands í viðtali við frönsku BFMTV sjónvarpsstöðina í morgun.

Sagði Collomb bresku leyniþjónustuna hafa deilt þessum upplýsingum með frönsku leyniþjónustunni.

„Í dag vitum við bara það sem bresku rannsakendurnir hafa sagt okkur – þetta er breskur ríkisborgari af líbískum uppruna, sem skyndilega eftir ferð til Líbíu og þaðan líklega til Sýrlands, verður róttækur og ákveður að fremja þessa árás,“ sagði Collomb.

Spurður hvernig hann vissi að Abedi hefði farið til Sýrlands, sagði hann þetta vera upplýsingar sem franska og breska leyniþjónustan byggju yfir.

Ekki liggi hins vegar fyrir ennþá hvort Abedi hefði notið utanaðkomandi stuðnings. „Það er ekki vitað en þá, en kannski. Í öllu falli þá hefur verið sannað að hann hafði tengsl við [hryðjuverkasamtökin] Ríki íslams.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert